Tók afmælið fram yfir enn eitt Grímsvatnagosið

Magnús Tumi Guðmundsson.
Magnús Tumi Guðmundsson.

Eldgosið í Grímsvötnum varð til þess að nokkur afföll urðu á gestum í fimmtugsafmælisveislu Magnúsar Tuma Guðmundssonar í fyrrakvöld.

Magnús er sem kunnugt er jarðeðlisfræðingur og einn helsti eldfjallasérfræðingur landsins. Kollegar Magnúsar Tuma úr þeim hópi voru gestir í afmælinu og týndu tölunni þegar fréttir af gosinu bárust.

„Það hefði ekki verið gott ef ég hefði skrópað í eigin afmæli,“ segir Magnús Tumi spurður um þessa tilviljun. Hann hafi afráðið að sleppa því einfaldlega að hugsa um gosið og skemmta sér þess í stað í veislunni. Hann flaug síðan og skoðaði gosið í gærmorgun.

„Ég held ekki upp á fimmtugsafmæli nema einu sinni á ævinni. Þetta er hins vegar fjórða Grímsvatnagosið sem ég fylgist með, þannig að ég ákvað að láta afmælið hafa forgang,“ segir Magnús Tumi. „Það er náttúrlega hópur fólks sem vinnur að þessum rannsóknum og eftirliti. Maður er bara einn hlekkur í þeirri keðju, og sá hlekkur mátti vel missa sín í gær,“ bætir hann við í léttum dúr.
 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert