Vaknaði í myrkri

Kjartan Kjartansson og Elín Þóra Guðmundsdóttir.
Kjartan Kjartansson og Elín Þóra Guðmundsdóttir. mbl.is/Eggert

„Svona er staðan, það þýðir ekki að hugsa um annað,“ sagði Kjartan Kjartansson, skólastjóri á Kirkjubæjarklaustri.

Hann og kona hans, Elín Þóra Guðmundsdóttir, héldu sig heima með þremur börnum sínum. Hann sagðist hafa vaknað í myrkri, bölvað því að vera andvaka og snúið sér á hina. Hann hefði svo áttað sig á því að þetta hefði verið um klukkan hálfátta um morguninn þegar venjulega er orðið bjart.

Þeir sem þurftu að skjótast á milli húsa voru með öryggisgleraugu og grímur enda þykkt öskulag yfir þorpinu, götum, húsþökum og kyrrstæðum bílum og rykið þyrlaðist upp úr sporunum þegar fólk gekk eða bílar óku hjá.
Logn var í gær en ekki þarf mikinn vind til að askan fari af stað. Af nógu er að taka.

Tíminn var notaður til að spila og horfa á sjónvarpið. Allir höfðu það gott, verra var með hundinn sem þau eru að passa, hann komst ekki út til að gera þarfir sínar, fyrr en leið á daginn.

Elín Þóra sagði að þótt reynt hefði verið að líma fyrir rifur við opnanleg fög og útihurðir smygi rykið alls staðar inn. „Þetta er viðbjóður,“ sagði hún.

Askan raskaði daglegu lífi fólks. Áhrifin gætu orðið verri í dag og næstu daga.
Ljóst er að skólahald fellur niður á Kirkjubæjarklaustri í dag. Aðeins fjórir dagar eru eftir af skólanum og átti að nota tímann til útivistar. Ekki lítur vel út með það og ef til vill er skólahaldi lokið í vor. Kjartan sagði að það yrði metið í dag í samráði við viðkomandi yfirvöld.

Kjartan vissi til þess að fólk hefði forðað sér í burtu, meðal annars barnafólk. Hann sagði það skiljanlegt, rykið færi illa í marga.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert