Ekkert hlaupvatn í ánum

Gosmökkurinn frá eldstöðinni í Grímsvötnum í gær.
Gosmökkurinn frá eldstöðinni í Grímsvötnum í gær. mbl.is/RAX

Ekkert hlaupvatn er enn komið í Gígju eða Núpsvötn. Gunnar Sigurðsson, vatnamælingamaður hjá Veðurstofunni, segir vel fylgst með ánum en búist er við hlaup komi úr Grímsvötnum í kjölfar eldgossins.

Sjálfvirkir mælar eru í Gígju og Núpsvötnum sem mæla vatnshæð, hitastig og rafleiðni. Ekki er hins vegar sjálfvirkur mælir í Grímsvötnum og því engin leið að segja til um hver vatnshæðin þar er. Hlaup kom úr Grímsvötnum í fyrrahaust og því er ekki talið að mikið vatn hafi verið þar þegar gosið hófst.

Gunnar sagði ekki vitað hversu hratt ís bráðnar í Grímsvötnum, en miðað við staðsetningu á gosinu sé ekki endilega líklegt að bráðnun sé hröð.

Í Grímsvatnagosinu 1998 leið um einn og hálfur mánuður frá því gosið hófst þar til hlaup kom niður á Skeiðarársand. Það gos var hins vegar mun minna en þetta gos.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert