Fleiri leita eftir aðstoð í Kópavogi

Kópavogur.
Kópavogur. www.mats.is

Fjárhagsaðstoð Kópavogsbæjar til einstaklinga og fjölskyldna jókst verulega á síðasta ári frá árinu á undan. Nam aðstoðin í fyrra tæpum 230 milljónum króna samanborið við 170 milljónir árið 2009.

Í tilkynningu frá bænum kemur fram, að alls nutu 555 fjölskyldur og einstaklingar þessarar aðstoðar á síðasta ári samanborið við 495 árið á undan.

Samkvæmt reglum bæjarins eiga þeir rétt á fjárhagsaðstoð sem eru undir ákveðnum tekjumörkum og geta ekki séð sér og sínum farborða. Nú nemur aðstoðin 135 þúsund krónum á mánuði til einstaklinga en 216 þúsund til hjóna og sambýlisfólks.
 
Í ársskýrslu Félagsþjónustu Kópavogs fyrir árið 2010 kemur fram að nýr hópur einstaklinga eða hjóna hafi í auknum mæli leitað eftir aðstoð félagsþjónustunnar, þ.e.a.s. hópur sem er tekjuhærri og mun skuldugri en þeir hópar sem áður hafi leitað aðstoðar.

Til að styðja betur við barnafólk í þessum hópi ákvað félagsmálaráð að hækka viðmiðunarmörk launa vegna greiðslu leikskólagjalda, dægradvalar, skólamáltíða og áframhaldandi tómstundaiðkunar barna. Samkvæmt því mega tekjur einstaklinga með börn í þessum hópi nema að hámarki 220 þúsund krónum á mánuði en samanlagðar tekjur hjóna 352 þúsund krónum.
 
Þá kemur fram í ársskýrslunni að tilkynningum til barnaverndar hafi fjölgað um 10% mill ára en þær voru 835 á árinu 2010 vegna 496 barna.  Það sé jafnframt samdóma álit starfsmanna að mörg barnaverndarmál séu nú þyngri til lausnar en áður og sama gildi  um fjárhagsaðstoðarmál.

Í ávarpi félagsmálastjóra, Aðalsteins Sigfússonar, segir að kreppan hafi eins og árið á undan mótað starfsemi félagsþjónustunnar á árinu 2010. Árið hafi einkennst af atvinnuleysi, atvinnuleit erlendis, fjárhagslegum áföllum, örvæntingu margra og fátækt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert