Flýja öskuna með lestum

Farþegar á flugvellinum í Edinburgh komust ekki leiðar sinnar.
Farþegar á flugvellinum í Edinburgh komust ekki leiðar sinnar. Reuters

Farþegar sem áttu bókað flug frá Skotlandi hafa í morgun farið með lestum til London, en búið er að loka flugvöllum í Skotlandi vegna öskufalls frá eldgosinu í Grímsvötnum. Einar Falur Ingólfsson blaðamaður segir þessa fólksflutninga ganga vel.

Icelandair felldi niður flug frá Glasgow og er næsta ferð áætluð á föstudaginn. Einar Falur sagðist ekki hafa treyst sér til að bíða svo lengi og því valið þá leið að fara með lest til London. „Það er ótrúlega margt fólk í lestinni í sömu stöðu. Það eru allir að flytja sig suður á bóginn, bæði fólk sem ætlaði að ferðast innanlands og til annarra landa. Þetta virðist ganga snurðulaust fyrir sig. Sama er að segja með farþega sem áttu bókað ferð með Flugleiðum. Þetta gengur allt vel fyrir sig,“ sagði Einar sem reiknar með að komast heim með flugvél í kvöld.

Einar Falur sagði farþega mikið ræða um gosið og áhrif þess á samgöngur, en hann sagðist ekki verða var mið að menn væru pirraðir. Flestir tækju þessu bara nokkuð létt.

Fjölmiðlar fjölluðu mikið um að gosið hefði raska ferðum Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, sem neyddist til að flýta för vegna gossins. Karl Bretaprins átti að taka á móti Obama á Stansted-flugvelli í morgun, en Obama lenti í gærkvöldi og prinsinn fékk því ekki tækifæri til að taka á móti forsetanum. Nú væri verið að reyna að koma á stuttum fundi þeirra tveggja til málamynda þannig að þeir geti hist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert