„Komin sól og hætt að snjóa“

Allt hefur verið á kafi í snjó á Egilsstöðum en …
Allt hefur verið á kafi í snjó á Egilsstöðum en þar hefur nú rofað til. mbl.is/Vilmar Freyr Sævarsson

„Það er komin sól og hætt að snjóa," sagði lögreglumaður á Egilsstöðum við  mbl.is í kvöld er aflað var helstu frétta af vaktinni. Héraðsbúar og aðrir Austfirðingar hafa ekki farið varhluta af snjókomu síðustu daga og binda nú vonir við að geta fagnað sumarkomu á ný.

Að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum er færð víðast hvar orðin mjög góð. Búið er að ryðja alla vegi og ferðamenn úr Norrænu, sem kom til Seyðisfjarðar í dag, hafa enn sem komið er ekki lent í skakkaföllum í íslenskri vetrarfærð í sumarbyrjun.

Allt að 60 cm jafnfallinn snjór er í mörgum húsagörðum á Egilsstöðum og er vitað um suma íbúa sem höfðu tekið til garðsláttuvélar daginn áður en snjókoman byrjaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert