Leifur varð að fresta ferð á Hnjúkinn

Frá æfingaferð Leifs á Snæfellsjökul.
Frá æfingaferð Leifs á Snæfellsjökul.

Leifur Leifsson neyðist til að fresta ferð á Hvannadalshnjúk, en hann ætlaði að leggja af stað á morgun. Leifur er fatlaður og er í hjólastól, en hann ætlaði að fara á Hnúkinn fyrir eigin handafli á sérútbúnum sleða.

„Ég er búinn að vera að undirbúa þetta síðan í október á síðasta ári. Ég hef verið í stífum æfingabúðum í Hreyfingu, þar sem ég hef verið með tvo einkaþjálfara. Síðan gerist þetta og maður verður bara að taka því,“ sagði Leifur sem vonar að það gefist annað tækifæri til að reyna við Hvannadalshnjúk.

Leifur er ákveðinn í að fara upp á fjallstind um næstu helgi þrátt fyrir eldgosið. Hann velti fyrir sér að fara á Eyjafjallajökul eða Heklu en þar er öskufall. Hann hefur því ákveðið að stefna að því að fara á Snæfellsjökul. „Ég toppa hann á einum sólarhring en ferðin á Hvannadalshnjúk átti að taka fimm sólarhringa.“

Leifur fór í vetur æfingaferð á Snæfellsjökul til að reyna sleðann og hann stóð fyllilega undir væntingum. Hann fór ekki alla leið upp, en nú ætlar hann að sigra tindinn.

Áhugi Leifs á fjallaferðum vaknaði þegar hann fór á Esjuna fyrir nokkrum árum, en þá var hann dreginn upp á fjallið. Hann einsetti sér hins vegar að komast upp á fjallstind fyrir eigin afli og hefur síðan velt fyrir sér leiðum til þess. Seinlega gekk að finna einhvern sem væri tilbúinn til að smíða sleða fyrir hann, en Jóhann Kjartansson hjá KM-stáli gekk í verkið og skilaði stól sem Leifur er mjög ánægður með. Stóllinn er að hálfu leyti reiðhjól og hálfu hjólastóll. Hann ætlaði að fara á Hvannadalshnjúk ásamt félögum úr Flugbjörgunarsveitinn í Reykjavík.

Leifur sagði að margir hefðu hjálpað sér við að undirbúa ferðina, en mestu skipti aðstoð sem hann hefði fengið við að koma sér í líkamlegt form.  Einkaþjálfararnir Arna Hrönn Aradóttir og Kristín Birna Ólafsdóttir frjálsíþróttarkona hefðu unnið ómetanlegt starf í sjálfboðavinnu.

Sleðinn gerður klár fyrir átökin.
Sleðinn gerður klár fyrir átökin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert