Of seinir að mæla öskuna

Eldingar í gosmekkinum.
Eldingar í gosmekkinum. mynd/Þór E. Bachmann

„Það kemur mér spánskt fyrir sjónir að menn skuli ekki vera sneggri af stað að mæla öskuna, sérstaklega þar sem uppi eru rökstuddar grunsemdir um að reiknilíkönin ofmeti öskuþéttleikann,“ segir Haraldur Ólafsson veðurfræðingur sem staddur er á veðurfræðiráðstefnu í Skotlandi.  

Veðurráðstefnan er um fjallaveður og áhrif fjalla á veðurfar. Um 100 manns eru á ráðstefnunni sem haldin er annað hvert ár. Auk Haraldar eru Hálfdán Ágústsson, Guðrún Nína Petersen og Ólafur Rögnvaldsson á ráðstefnunni, en þau kynna áhrif fjalla á Íslandi og Noregi á VEÐUR OG veðurfar.

Haraldur sagði menn ræða eðlilega mikið um eldgosið í Grímsvötnum á ráðstefnunni. 

Haraldur sagði menn ekki hafa nákvæmar upplýsingar um hversu mikil aska væri í andrúmloftinu. „ Stærsta óvissan er hversu mikil aska fer í andrúmsloftið, í öðru lagi í hvaða hæð hún lendir, því vindar breytast oft mikið með hæð og í þriðja lagi er óvissa tengd því hversu hratt askan fellur niður og hversu hratt hún þynnist út. Ég myndi telja að mesta óvissan tengdist því hversu mikil aska kemur inn í andrúmsloftið, þ.e. hversu mikið kemur upp úr gígnum.“

Haraldur sagði að þegar svona náttúruhamfarir eiga sér stað væri mikilvægt að vera fljótur að bregðast við og mæla það sem væri að gerast. Hann sagði að þegar gosið hófst hefði leiser-tæki, í eigu rannsóknarstofnunar í Bretlandi, verið staðsett undir Eyjafjöllum. Fengist hefði heimild til að flytja það til Keflavíkur og það var gert strax. Verið er að stilla tækið og vonast er að það gefi upplýsingar um hvort það er aska yfir Keflavíkurflugvelli. „Það verður væntanlega hægt að nota þessar mælingar til að ákveða hvort það verður lokað fyrir flug.“

Haraldur sagði að þetta hefði vakið umtal á ráðstefnunni og menn verið sammála um að þetta væru snögg og góð viðbrögð. Margir væru á því að sumstaðar annars staðar hefðu menn þurft að halda nokkra fundi og sofa á málinu áður en tækið væri flutt.

Flogið er frá Keflavíkurflugvelli í dag. „Það lítur hins vegar ekki sérstaklega vel út með helgina. Þá verður vindur austanstæður og þá getur komið aska aftur,“ sagði Haraldur.

Þegar gaus í Eyjafjallajökli voru tekin sýni úr öskunni í háloftunum. M.a. kom hingað þýsk flugvél og flaug í kringum strókinn. „Þau sýni voru nýtt til þess að meta það sem út úr eldfjallinu kom. Það tók hins vegar furðulangan tíma að koma því í kring. Það sama á við um rannsóknarflugvél breska ríkisins. Hún er ekki enn farin í loftið og allt í óvissu um hvað það varðar.“

Haraldur sagði að veðurlíkön og veðurspár væru að jafnaði ágætar, en öskudreifingarspár lakari. Öll líkön þyrfti að styðja með mælingum og það ætti sérstaklega við um þau sem notuð eru við öskuspár.

Haraldur Ólafsson veðurfræðingur
Haraldur Ólafsson veðurfræðingur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert