Öskufall og ferðamennirnir farnir

Svona er ástandið við Freysnes við Skaftafell.
Svona er ástandið við Freysnes við Skaftafell. mynd/Hjalti Björnsson

Öskufall er að aukast í Freysnesi við Skaftafell, en fram að þessu hefur ástandið þar verið mun betra en á Kirkjubæjarklaustri. Anna María Ragnarsdóttir, sem rekur söluskálann í Freysnesi, segir áhrif gossins á ferðaþjónustuna slæm og óvissan sé mikil.

Anna María byggði upp öflugt hótel í Freysnesi, en Fosshótel sjá nú um rekstur þess. Þar voru um 130 manns þegar gosið hófst en engir gestir eru núna á hótelinu. Þeir voru allir fluttir austur fyrir því að vegurinn milli Víkur og Skaftafell er lokaður.

Ferðaþjónusta er stærsti atvinnuvegur undir Vatnajökli á þessum árstíma og mikið um að vera. Anna María sagði að fyrirtæki í ferðaþjónustu hefðu verið búin að ráða sumarstarfsfólk og búa sig undir mikil umsvif. Nú sætu menn í öskuryki með tóm hótel. Mikil óvissa væri um framhaldið því enginn vissi hvernig eldgosið myndi þróast.

Anna María sagði að það hefði verið öskugrámi í lofti í Freysnesi síðan á sunnudag. Staðan væri hins vegar alls ekki eins slæm og á Klaustri. Nú væri aftur á móti að þyngjast í loft. Íbúar á þessu svæði mættu búast við að öskufall ykist með breyttri vindátt.

Aðspurð hvort hún byggist við aska ætti eftir að blása um Skaftafell og svæðin í kring í sumar þó að gosinu lyki á næstu dögum sagði Anna María að veðrið hefði mikil áhrif á framhaldið. Ef það myndi rigna duglega myndi draga úr öskufjúki. Sumarið gæti því orðið ágætt ef gosið yrð ekki langt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert