Par handtekið eftir innbrot

Lögreglan brýnir fyrir húseigendum að læsa híbýlum sínum og ganga …
Lögreglan brýnir fyrir húseigendum að læsa híbýlum sínum og ganga kirfilega frá gluggum, ekki síst á jarðhæð. Mynd úr safni. Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók par síðdegis eftir að sást til ferða þess við innbrot í austurbænum um fjögurleytið. Íbúi í húsinu tilkynnti lögreglu um grunsamlegar mannaferðir og gaf greinargóða lýsingu á parinu.

Lögreglan hóf eftirgrennslan eftir manni og konu, sem hafa oft áður komið við sögu í þessum brotaflokki. Höfðu þau spennt upp glugga á jarðhæð á húsinu og komist þannig inn í íbúðina. Höfðu þau á brott með sér fartölvu, i-Pod og annan tölvubúnað. Fundust þau í austurbænum um sexleytið í kvöld, með þýfið á sér. Voru þau í annarlegu ástandi og bíða yfirheyrslu til morguns í fangaklefa lögreglunnar.

Lögreglu var einnig tilkynnt síðdegis um innbrot í geymslur í Breiðholti. Enginn hefur verið handtekinn vegna þess máls, sem er í rannsókn. Íbúi í húsinu tilkynnti um innbrot og þjófnað úr geymslum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert