„Þyrmdi yfir mig í morgun“

Bændur og hjálparlið lentu í þreifandi öskubyl þegar þeir byrjuðu …
Bændur og hjálparlið lentu í þreifandi öskubyl þegar þeir byrjuðu að koma lambfénu í hús. En það tókst að lokum. Ekki er pláss fyrir allt féð á húsi, með góðu móti. mbl.is/Eggert

„Það þyrmdi yfir sál og líkama, aðallega sálina, þegar ég vaknaði í morgun. Þá var ekkert annað að gera en að reyna að koma fénu inn,“ sagði Agnar Davíðsson, bóndi á Fossum í Landbroti, í gær. Hann var þá í þreifandi öskubyl með hjálparliði að koma lambfénu í hús.

Agnar kom fénu í aðhald í nágrenni fjárhúsanna í fyrradag. Hann sagðist ekki hafa pláss til að taka allt féð í hús með góðu móti. „Ég var að vona að þetta yrði skárra í dag.“ Ekki varð honum að ósk sinni og því þurfti að koma fénu inn.

Hörður bróðir Agnars og menn með honum komu frá Efri-Vík til að hjálpa. Var mikill eltingarleikur við lömbin sem reyndu að komast í burtu.

Agnar sagðist ekki hafa orðið var við að fé hafi drepist. Hins vegar var farið að vella úr augum lambanna og sagði Agnar hætt við að þau blinduðust ef þau væru áfram úti í öskunni.

Vatnið sem féð hafði aðgang að úti varð strax mórautt og Jónskvíslin sem er tærasta áin á svæðinu er orðin eins og Skaftá.

Frávillingar og vesalingar

Þétt var á fénu í fjárhúsunum, þegar allt var komið inn. „Ég er mest hræddur við að það verði frávillingar eða vesalingar við þessar aðstæður. Tjónið verður því gríðarlegt í haust og er þegar orðið,“ sagði Agnar. Hann sagði betra að hafa féð inni, þótt þröngt væri á því. „Því miður geta ekki allir gert það.“

„Ég hugsa ekki út í afréttinn, það er nóg að hugsa um heimalandið. Reyna svo að koma fénu sem fyrst í sláturhús í haust. Það þarf að lagast mikið á næstu tveimur vikum til þess að við lendum ekki í ömurlegu sumri og heyskaparleysi,“ sagði hann.

„Það kemur alltaf upp í hugann þegar maður lendir í svona, af hverju maður er að standa í þessu. Afraksturinn er ekki svo mikill,“ sagði Agnar en tók fram að hann væri í annarri vinnu með og Davíð Andri, sonur hans, að taka við búskapnum.
 

Agnar Davíðsson, Davíð Andri sonur hans og Hörður Davíðsson, bróðir …
Agnar Davíðsson, Davíð Andri sonur hans og Hörður Davíðsson, bróðir Agnars voru ekki frýnilegir þegar þeir komust loksins inn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert