„Við bara lokuðum“

Það er búið að vera dimmt við Skaftafell síðan gosið …
Það er búið að vera dimmt við Skaftafell síðan gosið hófst. mynd/Hjalti Björnsson

„Við bara lokuðum enda eru bækistöðvar okkar í Skaftafelli og þar ekki hægt að vera,“ sagði Torfi Yngvarsson, eigandi Glacierguides. Á þessum árstíma ganga jafnan margir á Vatnajökul en engin leið er að komast þangað núna.

Vegurinn yfir Skeiðarársand er lokaður og því ekki hægt að komast akandi í Skaftafell frá Reykjavík nema að fara noruðurleiðina. Mjög mikið öskufall hefur verið í Skaftafelli og engin leið að vera þar. Umferð um Vatnajökul er hins vegar ekki bönnuð.

Torfi sagði fyrirtækið þurfa að fella niður ferðir sem væri að sjálfsögðu fjárhagslegt tjón fyrir fyrirtækið. Hann sagðist hins vegar ekki vera svartsýnn á sumarið, a.m.k. ekki enn. Ef gosið í Grímsvötnum hagaði sér eins og Grímsvatnagos hefðu gert ætti að draga úr gosinu á fjórða degi og þá væri vonandi hægt að fara að huga að ferðum á jökulinn.

Glacierguides voru með ferðir á Sólheimajökul í fyrra og Torfi sagði að aska frá Eyjafjallajökli hefði hreinsast af jöklinum á 10-20 dögum eftir að dró úr öskufalli. Jöklarnir væru kúptir og þegar rigndi þá skolaðist askan hratt í burtu.

Torfi sagði að bókanir í ferðir hefðu ekki stöðvast hjá fyrirtækinu þrátt fyrir gosið. Hann sagðist trúa því að hægt yrði að fara á Vatnajökul á næstu vikum.

Örlygur Steinn Sigurjónsson leiðsögumaður var búinn að skipuleggja ferð á Hvannadalshnjúk um næstu helgi. Hann er ekki búinn að tilkynna hópnum um framhaldið, en telur litlar líkur á að ferðin verði farin. Hann sagði ekki æskilegt að leggja bíla og búnað undir öskufall jafnvel þó að vegurinn opnaðist.

Örlygur var að koma af Hvannadalshnjúk þegar gosið hófst og sá gosmökkinn koma upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert