„Bleikjan er ótrúlegur fiskur“

Gríðarlegt öskufall er búið að vera á Kirkjubæjarklaustri síðustu daga.
Gríðarlegt öskufall er búið að vera á Kirkjubæjarklaustri síðustu daga. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Bleikjan er ótrúlegur fiskur,“ segir Birgir Þórisson, framkvæmdastjóri Klausturbleikju, sem segir að tjón hjá fyrirtækinu vegna eldgossins væri mun minna en hann óttaðist.

Gríðarlegt öskufall hefur verið á Klaustri og það leiddi til þess að ristar í nokkrum eldiskerjum stífluðust og flaut fiskur upp úr þeim og drapst. Um hálft tonn af fiski drapst.

„Þetta lítur miklu betur út en við þorðum að vona. Við höfum svo gott lindarvatn og keyrum það í gegnum kerin á fullu núna. Fiskurinn er farinn að éta og syndir um eins og ekkert hafi í skorist. Ég er því að vona að þetta hafi ekki haft áhrif á fiskinn.

Bleikjan er alveg einstakur fiskur. Ég efast um að nokkur önnur fisktegund hefði þolað þetta. Ástandið var þannig að það sást ekki til botns. Gruggið var svo mikið í vatninu. Fiskurinn þoldi það samt. Ég var hræddastur við minnstu seiðin en þau virðast hafa sloppið alveg. Við vitum að bleikjan lifir í jökulám því hún þarf að synda upp þær þegar hún er á leið upp árnar,“ sagði Birgir.

Birgir hefur eins og aðrir íbúar á Klaustri unnið dag og nótt við að forða tjóni. Hann sagði að mikil aska hefði borist inn í öll hús, en þó í mismiklum mæli. Eldri hús væru sum hver óþétt og þar væri ástandi verst. Hann sagðist hafa límt límband fyrir alla glugga og það hefði skipt miklu máli. Hann sagðist engan tíma hafa haft til að þrífa heima og þar væri mikil vinna framundan að hreinsa ösku út úr húsum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert