Ekki mikill flúor í öskunni

Sauðfé smalað við bæinn Foss á Síðu í öskufallinu fyrr …
Sauðfé smalað við bæinn Foss á Síðu í öskufallinu fyrr í vikunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jarðvísindastofnun Háskólans hefur efnagreint tvö öskusýni úr Grímsvatnagosinu. Lítið af flúor greindist í öskunni en varað er við því að búfé drekki vatn úr rigningarpollum.

Annað sýnið var tekið á Kirkjubæjarklaustri í upphafi öskufalls, rétt eftir miðnætti 22. maí, eða kl 0:58. Seinna sýnið tekið á Hörgslandi á Síðu að morgni 22. maí, kl. 8.45.


Útskolun vatnsleysanlegra efna af yfirborði öskunnar var gerð til að líkja eftir efnasamsetningu regnvatns eftir fyrstu snertingu við öskuna. Skoltilraunin var gerð á 2 g af ösku í 10 ml af vatni. Innihald öskunnar af vatnsleysanlegum flúor á yfirborði er samkvæmt þessum mælingum 4,90 mg/l og 4,95 mg/l.


„Þetta er lítið magn flúors en þó er full ástæða til að hafa vara á með að búfé drekki ekki vatn úr rigningarpollum sem gætu innihaldið mun meira magn útskolaðs flúors,“ segir á vef Búnaðarsambands Suðurlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert