Gránar um leið og strokið er yfir

Guðný Óskarsdóttir er komin með fimm lömb í fóstur.
Guðný Óskarsdóttir er komin með fimm lömb í fóstur. mbl.is/Eggert

„Það er grá slikja komin yfir allt, um leið og maður hefur strokið yfir,“ sagði Guðný Óskarsdóttir sem rekur farfuglaheimili á Hvoli í Fljótshverfi ásamt Hannesi Jónssyni sem jafnframt er með fjárbúskap. Guðný segist vera að gefast upp á þrifunum, það hafist ekki undan, nema hvað hún reyni að halda eldhúsinu hreinu.

Mikið öskumor var í gær yfir bæjunum á Síðu, fyrir austan Kirkjubæjarklaustur, og í Fljótshverfi sem er austasta sveitin í Vestur-Skaftafellssýslu. Takmarkað skyggni var á veginum vegna öskubylja og á einni brúnni var öskuskafl. Það grillti í fossinn sem bærinn Foss á Síðu er kenndur við en hvergi sást í Lómagnúp. „Ég hef ekki séð hann síðan þetta byrjaði,“ segir Hannes á Hvoli og bætir því við að mesta skyggnið sem hafi fengist frá því eldgosið í Grímsvötnum hófst hafi verið einn kílómetri. Þegar verst hefur gegnt hefur fólk varla séð niður á tærnar á sér.

Eldgos í beinni

Átján manna hópur erlendra ferðamanna var á farfuglaheimilinu á Hvoli fyrstu nóttina eftir að gosið hófst. „Hér var glampandi sól og blíða. Ég var á fullu að taka á móti fólkinu þegar ein konan kom til mín og sagði að eldgos væri byrjað. Ég sagðist hafa séð það í sjónvarpinu. Nei, ég sá það, sagði hún. Það fóru allir út á tröppur til að fylgjast með gosinu enda blasti það hér við af hlaðinu,“ sagði Guðný. Gestirnir vöknuðu í svartamyrkri morguninn eftir. Hannes fór um morguninn með vasaljós til fólksins. Hundrað metrar eru á milli húsanna og gekk hann þetta af gömlum vana því ekki sá hann ljósin á farfuglaheimilinu fyrr en hann átti 10-15 metra í það. Fólkið var ánægt að sjá hann og hjálpaðist að við að sópa öskunni. Askan var þá þegar í skóvarp. Sumir voru órólegir enda átti þeir pantað far með Norrænu frá Seyðisfirði. Þegar létti til síðar um daginn fór allt fólkið vestur.

„Þetta var svo fjarlægt þegar maður fylgdist með öskufallinu undir Eyjafjöllum. Allt öðruvísi er að upplifa þetta sjálfur og þrúgandi að vera innilokaður og geta ekki opnað glugga. En við höfum nógan mat og þurfum ekki að kvarta,“ sagði Guðný.

Öll lömbin lifa

Hannes sagðist búa með gamla laginu. Féð er í ullinni og hann gefur því út. „Ég átti því engan kost á að koma því inn,“ sagði hann.

Hann hefur enn ekki misst neitt af lömbunum sem ærnar hafa borið í öskunni. „Það eru fimmtán þrílembdar og öll lömbin hafa lifað. Ein ærin er þó hálfblind eftir að hafa karað lömbin. Hornhimnan hefur skaddast. Annars hefur þetta sloppið ótrúlega vel. Þær eru farnar að reyna að bíta þessi grænu strá sem standa upp úr öskunni og sandurinn virðist ekki skaða þær,“ sagði Hannes.

Fjölgað hefur í heimili hjá Guðnýju. Hannes hefur komið heim með lömbin sem þarf að gefa pela. Eitt var þar í gærmorgun en þegar hann kom úr fjárhúsunum eftir hádegið voru þau orðin fimm í fæði hjá húsfreyjunni. Honum leist þó ekki á framhaldið. „Ef það verður svona fok áfram held ég að það hljóti að enda með einhverjum afföllum hér líka.“ Hressileg rigning gæti létt mikið á en Hannes er ekki bjartsýnn á miklar rigningar. Síðustu árin hefur verið þurrt fram í miðjan júní.

Gistir ekki á öskusvæðum

Viðbúið er að ferðaþjónustan verði fyrir áfalli, jafnvel þótt gosið hætti fljótlega. Hannes sagði að svo mikil aska væri komin að öskufok yrði áfram. Reynslan frá Eyjafjallagosinu sýndi að það hefði slæm áhrif á ferðamennskuna. Bílaleigurnar legðu áherslu á það við ferðafólkið að það bæri sjálft ábyrgð á tjóni vegna ösku. Því treystu fáir sér til að leggja yfir nótt við gistihús á öskusvæðinu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert