Gríðarleg vinna framundan

Skaftárskáli á Kirkjubæjarklaustri þegar ástandið var einna verst.
Skaftárskáli á Kirkjubæjarklaustri þegar ástandið var einna verst.

„Nú brosi ég út í bæði. Það er orðið dagsbjart og dropar farnir að falla,“ segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps. Hún segir gríðarlega vinnu framundan við að þrif, en hún segir stefnt að því að opna skólann á Klaustri fyrir helgi.

„Ég vona bara að það komi að góð rigning,“ sagði Eygló sem er að skipuleggja hreinsunar- og uppbyggingarstarf eftir að hafa ásamt öðrum íbúum á Klaustri þurft að takast á við gríðarlegt öskufall síðustu daga.

Eygló sagði að aska hefði borist inn í hús og það væri mikil vinna framundan við að þrífa. Ekki yrði hægt að opna grunnskólann eða leikskólann fyrr en búið væri að hreinsa öskuna. „Þú getur rétt ímyndað þér hvernig leikskólinn er. Það þarf að þrífa hvern einast kubb og hvert einast púsl. Það klárast ekki á einum degi.“

Eygló sagðist ekki geta svarað því hversu hratt gengi að þrífa öskuna úr húsum. Íbúar á Klaustri hefðu síðustu daga staðið vaktina dag og nótt við að bjarga því sem hægt væri að bjarga. Fólk væri orðið þreytt og nauðsynlegt að fá fólk til að aðstoða við hreinsunarstarfið. Eygló tók fram að heimamenn vildu sjálfir stjórna hreinsunarstarfinu og myndi kalla eftir þeirri hjálp sem nauðsynleg væri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert