Leikskólakennarar íhuga verkföll

baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Það er hugur í félagsmönnum. Það er ekki hægt að segja annað. Fólk er búið að fá nóg af aðgerðaleysinu. Viðræður við samninganefnd sveitarfélaganna hafa staðið yfir frá því í haust en engan árangur borið,“ segir Heiðar Örn Kristjánsson, formaður samninganefndar Félags leikskólakennara, um stöðu kjaraviðræðna.

„Með kjafti og klóm“

Hann segir ekki þurfa að minna félagsmenn á verkfallsvopnið.

„Við erum tilbúin að sækja þetta með kjafti og klóm. Það er horft til haustsins í því efni. Ef ekkert gengur í samningaviðræðum á næstu dögum verður kosið um að fara í verkfall sem skelli á 22. ágúst.

Við erum tveimur kjarasamningum á eftir grunnskólakennurum því þeir sömdu rétt fyrir hrun og eru nú búnir að semja um launahækkun aftur. Við leikskólakennarar erum hins vegar búnir að vera án kjarasamnings síðan 2009 og erum langt á eftir viðmiðunarstéttum.

Við lentum í því að það var ekki búið að ganga frá samningum þegar hrunið skall á. Við sátum þá eftir. Byrjunarlaun leikskólakennara eru rúmlega 247.000 krónur. Það er ekki mikið. Það er því mikið sem þarf að sækja,“ segir Heiðar Örn sem kveðst að öðru leyti ekki geta tjáð sig um samningskröfur félagsmanna.

Nær til um 2.000 kennara

„Boltinn er hjá samninganefnd sveitarfélaganna,“ segir Heiðar Örn og bætir því við að kjaraviðræður haldi áfram á morgun. Um 2.000 leikskólakennarar eru skráðir í félagið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert