Lítil virkni í Grímsvötnum

Lítill gufustrókur steig upp úr Grímsvötnum þegar þessi mynd var …
Lítill gufustrókur steig upp úr Grímsvötnum þegar þessi mynd var tekin um klukkan 5 í morgun. mynd/Ágúst Ævar Guðbjörnsson

Engin virkni hefur verið í eldstöðvunum í Grímsvötnum frá því klukkan tvö í nótt. Sömuleiðis hefur öskufall minnkað.

Þetta segir Gunnar B. Guðmundsson jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hann segir að of snemmt sé þó að segja til um hvort gosinu er lokið og segir að öskusprengingar geti komið upp fyrirvaralaust. Því sé ekki hættulaust að fara í námunda við gíginn.

„Þetta  virðist vera að fjara út og það hefur ekki verið að koma upp nein aska undanfarna klukkutíma,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is.

Að sögn Gunnars gaus upp öskumökkur um klukkan tvö í nótt og var hann um 12 kílómetra hár og um svipað leyti sáust tólf eldingar. „Í framhaldi af því hefur virknin minnkað mjög mikið og um fimm-leytið var óróinn á  ekki lengur samfelldur. Enn mælist nokkur órói á mælinum við Grímsfjall, sem er nokkra kílómetra frá eldstöðinni, en líklega er mest um gufusprengingar núna,“ segir Gunnar.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert