Nái að vinna upp tafir í dag

Eitthvað verður um raskanir á flugi hjá Icelandair og Iceland Express í dag. Talsmenn félaganna telja hins vegar að þeim muni takast í dag ná að vinna upp þær tafir sem urðu vegna eldgossins í Grímsvötnum.

„Þetta er allt að falla í sínar venjulegu skorður. Það voru seinkanir í fluginu núna í morgun, og verður sjálfsagt eitthvað þegar það líður á daginn. En við gerum ráð fyrir því að þetta verði allt komið á venjulegt ról í fyrramálið,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair í samtali við mbl.is.

Matthías Imsland, framkvæmdastjóri Iceland Express, segir að eitthvað verði um raskanir í dag. „Mér sýnist hins vegar að við náum að vinna þetta allt upp í dag.“

Hann bendir á að vélar sem komust ekki frá Kaupmannahöfn og London í gær séu nú væntanlegar til landsins. Í dag sé von á þremur vélum frá Kaupmannahöfn og tveimur frá London. Þá segir hann að Bandaríkjaflugið verði á tíma.

„Ef við skoðum öskuspána þá erum við ekki sjá neinar raskanir í kortunum,“ segir Matthías varðandi framhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert