Of sein að innleiða rafræna þjónustu

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að opinberar stofnanir hafi farið hægar í sakirnar við innleiðingu rafrænnar þjónustu en væntingar voru um.

Þetta sagði forsætisráðherra í ávarpi við upphaf ráðstefnunnar „Opið upp á gátt hjá ríki og sveitarfélögum.“

„Bæði almenningur og fyrirtæki hafa tekið aukinni rafrænni þjónustu fegins hendi og nýtt hana mjög vel án teljandi vandkvæða. Stofnanir hafa hins vegar farið hægar í sakirnar en væntingar voru um. Framboðið á slíkri þjónustu hefur því verið minna en eftirspurnin.

Staðan er því sú að almenningur er löngu tilbúinn til að taka upp rafræn samskipti og er það afar ákjósanleg staða fyrir opinbera aðila. Því blasir við að sóknarfærin liggja í því að auka framboð á hvers kyns þjónustu á opinberum vefjum og ná með því bættri þjónustu og aukinni hagræðingu,“ sagði Jóhanna.

Jóhanna ræddi einnig um frumvarp til nýrra upplýsingalaga. Hún gerði sérstaklega 13. gr. frumvarpsins að umtalsefni, en samkvæmt henni getur forsætisráðherra, með reglugerð, sett fyrirmæli um birtingu gagna og upplýsinga stjórnvalda á vefsíðum þeirra. Með reglugerðinni skal tryggja, eftir því sem kostur er, að birting sé samræmd milli stjórnvalda og að viðeigandi reglum um meðferð upplýsinga sé fylgt.

„Í þessu felst möguleiki á því að opnað verði fyrir aðgengi að upplýsingum um þau mál sem stjórnvöld hafa eða hafa haft til meðferðar. Með öðrum orðum að opnaður verið afmarkaður aðgangur að málaskrám opinberra aðila. Vitaskuld er ekki verið að tala um öll mál þar sem huga verður að ýmsu í þessu sambandi,  svo sem persónuverndarsjónarmiðum og öryggi ríkisins. Eigi að síður liggja í þessu tækifæri til að stórefla upplýsingarétt almennings en það er megintilgangur frumvarpsins,“ sagði Jóhanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert