„Þetta er tilkomumikið að sjá“

Gosmökkurinn frá eldstöðinni í Grímsvötnum í gær.
Gosmökkurinn frá eldstöðinni í Grímsvötnum í gær. mbl.is/RAX

„Þetta er náttúrulega tilkomumikið að sjá. Þetta er mikill strókur, þó eflaust sé hann nú orðinn lægri en hann var í upphafi. En þetta er mjög mikið svart hérna, mikill vikur og aska hér allt í kringum vötnin,“ segir Gunnar Kr. Björgvinsson, björgunarsveitarmaður úr Hjálparsveit skáta í Reykjavík.

Björgunarsveitar- og jarðvísindamenn fóru á snjóbílnum Bola, sem Hjálparsveit skáta í Reykjavík á, áleiðis upp að Grímsvötnum síðdegis í dag. Þegar blaðamaður náði tali af Gunnari var hópurinn staddur á Grímsfjalli, um það bil þrjá kílómetra frá gígnum.

„Það er ljómandi gott veður í augnablikinu. Þessi stormur sem er búinn að standa hérna í tvo sólarhringa er genginn niður núna. Það er komið hæglætisveður og skyggnið er farið að skána,“ segir Gunnar.

Hann telur gosmökkinn ná um þrjá kílómetra upp í loft í mestu hrinunum. Það er töluvert lægra en þegar hann fór hæst, en töluvert hefur dregið úr sprengivirkni í Grímsvötnum. Hæst fór mökkurinn í um átta kílómetra laust eftir hádegi.

Fyrir utan að virða einfaldlega fyrir sér gosið og átta sig á aðstæðum uppi á jökli hafa vísindamenn tekið sýni og mælingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert