Stjórnarflokkarnir hafa boðist til að bíða með umræðu um frumvarp um heildarendurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins ef sátt næst um að afgreiða nauðsynlegustu breytingar á innistæðutryggingakerfinu á morgun, þriðjudag.
Ekki hefur náðst samkomulag á milli þingmanna stjórnar og stjórnarandstöðu um hvernig staðið verður að umræðum um sjávarútvegsfrumvörpin og þingstörf til loka vorþings.
Stjórnarflokkarnir stefna að því að afgreiða minna frumvarpið, það sem snýr að breytingum á núgildandi lögum, og koma frumvarpinu um heildarendurskoðun til nefndar. Reiknað er með að sjávarútvegsráðherra mæli fyrir minna frumvarpinu.
Tillaga um afgreiðslu innistæðutryggingamálsins verður rædd í þingnefnd og þingflokkum í dag. Ef samstaða næst um afgreiðslu þess verður stóra frumvarpið tekið af dagskrá í bili og reynt að ná samkomulagi um framgang þess, og aðeins rætt um það minna.