Ófriðurinn alltaf fyrir valinu

Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri ráðherrar á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri ráðherrar á Alþingi.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gerðu harða hríð að Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á Alþingi í dag og gagnrýndu hana fyrir að vilja hafa umræður um breytingar á stjórn fiskveiða í ágreiningi. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði ríkisstjórnina ávallt kjósa frekar ófrið um mál en sættir. Það hefði sýnt sig. Þá var Jóhanna harðlega gagnrýnd fyrir að vera ekki viðstödd umræðuna í þinginu.

Var afgreiðsla meirihluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar á litla frumvarpinu svonefndu í morgun til annarrar umræðu harðlega gagnrýnd og að engin efnisleg umræða hefði farið fram um málið í nefndinni. Þá var gagnrýnt að frumvarpið hefði ásamt stóra frumvarpinu verið lagt fram á síðustu stundu þvert á þingsköp þrátt fyrir fögur fyrirheit um bætt vinnubrögð á Alþingi.

Stjórnarliðar sem tóku til máls sögðu stjórnarandstöðuna einnig bera ábyrgð á því að lok þingsins væri í óvissu. Þingmenn hennar hefðu haldið langar ræður um ýmis mál sem ekki væri ágreiningur um. Meirihluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hefði gert breytingar á frumvarpinu til þess að rétta út sáttahönd en í hana hefði ekki verið tekið.

Þá gerðu stjórnarliðar athugasemdir við persónulega gagnrýni stjórnarandstöðuþingmanna á forsætisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka