„Störf í landi verða ekki til með strandveiðum því fiskurinn fer að stórum hluta með flugi til útlanda. Aukning á slíkum pottum verður aðeins til að minnka aflaheimildir okkar sem keyptum þær dýrum dómum til að verja störf í landi.“
Þetta segir Gunnlaugur K. Hreinsson, framkvæmdastjóri GPG fiskverkunar, sem rekur fiskvinnslu og útgerð á Húsavík og Raufarhöfn og á fyrirtækið Þórsnes í Stykkishólmi. Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir hann, að með frumvarpi sjávarútvegsráðherra sé vegið að störfum í landi á landsbyggðinni.
Gunnlaugur segir að engin vinnsluskylda sé á strandveiðum og fiskurinn fari að miklu leyti óunninn í gáma og til útlanda. Hann segir að hlutur landverkafólks rýrni stöðugt þvert á það sem stefnt hafi verið að með strandveiðunum sem áttu að auka atvinnu á landsbyggðinni.
„Við hér á norðausturhorninu höfum reynt að verja störfin í fiskvinnsluhúsunum. Þegar bankarnir ýttu kvótaverðinu upp eins og svo mörgu öðru féllu margir fyrir peningunum og vildu selja,“ segir Gunnlaugur.
„Bátar margra þessara manna höfðu lagt upp hjá okkur og fiskurinn var allur unninn hér á horninu. Hér er fullt af fólki sem á allt sitt undir þessari atvinnu og þegar hætta var á að kvótinn færi úr byggðarlaginu var reynt að kaupa heimildirnar og það höfum við gert. Nú eru þessir sömu aðilar farnir að veiða aftur og veiða frítt. Megnið af strandveiðimönnum hér eru menn sem seldu frá sér fyrir fullt af peningum. Nú eiga þeir að fá aflaheimildir á silfurfati og taka þennan sama kvóta af okkur án endurgjalds.