„Störf í landi verða ekki til með strandveiðum því fiskurinn fer að stórum hluta með flugi til útlanda. Aukning á slíkum pottum verður aðeins til að minnka aflaheimildir okkar sem keyptum þær dýrum dómum til að verja störf í landi.“
Þetta segir Gunnlaugur K. Hreinsson, framkvæmdastjóri GPG fiskverkunar, sem rekur fiskvinnslu og útgerð á Húsavík og Raufarhöfn og á fyrirtækið Þórsnes í Stykkishólmi. Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir hann, að með frumvarpi sjávarútvegsráðherra sé vegið að störfum í landi á landsbyggðinni.
Gunnlaugur segir að engin vinnsluskylda sé á strandveiðum og fiskurinn fari að miklu leyti óunninn í gáma og til útlanda. Hann segir að hlutur landverkafólks rýrni stöðugt þvert á það sem stefnt hafi verið að með strandveiðunum sem áttu að auka atvinnu á landsbyggðinni.
„Við hér á norðausturhorninu höfum reynt að verja störfin í fiskvinnsluhúsunum. Þegar bankarnir ýttu kvótaverðinu upp eins og svo mörgu öðru féllu margir fyrir peningunum og vildu selja,“ segir Gunnlaugur.