Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fundaði um svokallað litla frumvarp um stjórn fiskveiða í gærkvöldi. Meirihlutinn lagði til tilslakanir á efni frumvarpsins.
„Það var farið yfir hugmyndir stjórnarmeirihlutans í nefndinni um hvað mætti gera til að liðka fyrir þinglokum,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður nefndarinnar, í gærkvöldi. Hún segist hafa lagt fram efnislegar tilslakanir á efni frumvarpsins, ef ef þær mættu verða til þess að liðka fyrir samningum um þinglok.
„Það var engin efnisleg niðurstaða á þessum fundi,“ segir Einar K. Guðfinnsson, Sjálfstæðisflokki, sem situr í nefndinni. „Það voru lagðar fram nokkrar hugmyndir. Sumar eru til bóta, aðrar ganga ekki upp. Við gátum ekki rætt þær efnislega á fundinum,“ segir Einar og segist ekki geta tjáð sig um efni tillagna Lilju Rafneyjar, en hann segir að að einhverju leyti sé verið að koma til móts við þá gagnrýni sem hann hefur sett fram.