„Litla kvótafrumvarpið“ samþykkt

Alþingishúsið
Alþingishúsið mbl.is / Hjörtur

„Litla kvótafrumvarpið“ var samþykkt með áorðnum breytingum á áttunda tímanum í kvöld með 30 atkvæðum gegn 19.

Alþingi samþykkti að framlengja bráðabirgðaákvæði um hámarskaflahlutdeild fyrirtækja í krókaaflamarkskerfinu þannig að það taki gildi 1. september 2012 og verði þar með hluti af heildarendurskoðun á stjórn fiskveiða sem á að fara í í haust.

Ásbjörn Óttarsson mælti fyrir bráðabirgðaákvæðinu. Ásamt Ásbirni stóðu að tillögunni þeir Björn Valur Gíslason, Sigurður Ingi Jóhannsson og Björgvin G. Sigurðsson.

Breytingartillagan var samþykkt með 48 samhljóða atkvæðum. 

„Litla kvótafrumvarpið“ var afgreitt til 3. umræðu eftir hörð átök um frumvarpið undanfarið. Þingfundi var ítrekað frestað í dag meðan reynt var að ná sáttum um frumvörp átti að afgreiða áður en þingfundum yrði frestað.

Greidd voru atkvæði tuttugu sinnum um „litla kvótafrumvarpið“ eftir 2. umræðu og var kosið um einstaka töluliði greina frumvarpsins og breytingartillögur. Ein breytingatillaga (1693) meirihluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar var dregin til baka.

Uppfært 22.45

Ranglega var sagt í fyrstu útgáfu fréttarinnar að gildistöku laganna allra hafi verið frestað, það átti einungis við um bráðabirgðaákvæðið. Beðist er velvirðingar á misskilningnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert