„Miðað við stöðuna eins og hún var í upphafi held ég að menn geti nokkuð vel við unað,“ sagði Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, um „minna kvótafrumvarpið“ sem var samþykkt í gær.
Smábátaeigendur fengu þó ekki fram nærri allar breytingar á fiskveiðistjórninni sem þeir lögðu til, að sögn Arnar. Þeir hefðu líka viljað sá sumar greinar fara óbreyttar í gegn sem breyttust í meðförum þingsins.
Hann sagði smábátaeigendur óánægða með að allir útgerðarflokkar leggi ekki allir jafnt af mörkum til félagslegra aðgerða frá upphafi, það er til byggðakvóta, línuívilnunar og strandveiða. Þannig hafi verið lagt af stað með frumvarpið.
Örn sagði að allir hagsmunaaðilar hafi verið sammála þessari framsetningu og kvaðst hann vera hissa á að sú skyldi ekki verða niðurstaðan. „Uppsjávarskipin koma inn á fjórum árum með fjórðungshlut í bótum á móti fullu hjá hinum,“ sagði Örn.
Hann sagði meira en 90% af afla smábáta samanstanda af ýsu, þorski, ufsa og steinbít. Örn sagði að miðað við tillögur Hafrannsóknastofnunar sé fyrirsjáanlegur mikill niðurskurður bæði í ýsu og steinbít. Þá sé eftir að sjá hvernig aukning í þorski á næsta ári skilar sér.
Örn sagði smábátamenn sátta við aukningu um þorsk til strandveiða upp á 1.900 tonn, samkvæmt nýju lögunum. Örn sagði að smábátaeigendur hefðu viljað láta gera þá breytingu á strandveiðikerfinu að menn gætu sagt sig úr því um hver mánaðamót. Það fékkst ekki í gegn.
Nú eru menn bundnir við að stunda strandveiðar yfir allt tímabilið sem þær standa. Örn sagði marga báta vera með krókaaflamark og eiga kvóta. Þeir hefðu kosið að vera á strandveiðum í maí og júní og getað þá sagt sig úr strandveiðum til að geta veitt sinn kvóta í júlí og ágúst.
Smábátaeigendur fengu það heldur ekki í gegn að strandveiðiafli sé mældur í þorskígildum (þíg) en ekki einungis þorski. Nú mega menn vera með 650 kg af þorski. Ef miðað væri við þíg gætu menn verið með meira af öðrum tegundum en aflinn er aðallega þorskur og ufsi.
Þá vilja smábátamenn að ufsaveiðar á handfæri séu frjálsar yfir sumarið, en fór ekki heldur í gegn.
Örn sagði að komið hafi verið til móts við Stakkavík ehf. sem var yfir hámarki þess sem eiga má í hlutdeild í krókaaflamarkskerfinu. Þar er hámarkið sem hver má eiga 4% í þorski, 5% í ýsu og 5% í þíg. Fyrirtækið var yfir þessum mörkum þegar reglurnar voru settar.
Gildistöku þessa ákvæðis var frestað. Örn sagði að eftir bankahrun hafi ekki verið heilbrigður markaður með hlutdeildir. Það hefði haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið ef þetta atriði hefði verið keyrt í gegn, en gildistöku ákvæðisins var frestað til 1. september 2012.
Lögð var til 70% hækkun á veiðigjaldi en hún verður 40% og taldi Örn það jákvætt.
Þá sagði Örn að smábátamenn hafi viljað breyta byggðakvóta í byggðaívilnun. Hún myndi virka þannig að þegar menn landi afla til vinnslu á staðnum geti sveitarfélagið ákveðið að leggja ákveðið hlutfall á móti kvóta bátsins.
Ef sveitarfélag ákveði 20% ívilnun og bátur landaði 5 tonnum myndu 4 tonn dragast frá kvóta bátsins en 1 tonn frá kvóta sveitarfélagsins. Með þessu verði komið í veg fyrir allt brask með byggðakvótann. Örn sagði að þetta hafi ekki fengist í gegn.
Örn sagði að smábátamenn vilji að framsalið sé alveg frjálst en ekki heft. Hins vegar verði tekin upp skattlagning á þá sem láti meira frá sér en þeir kaupa til sín.