Milljarður í hærra veiðigjald

Breytingar á lögum um fiskveiðistjórnun voru samþykktar á laugardag eftir …
Breytingar á lögum um fiskveiðistjórnun voru samþykktar á laugardag eftir talsverð átök á Alþingi. Stóra frumvarpið um heildarendurskoðun á kerfinu bíður hins vegar þingstarfanna í haust. mbl.is/Brynjar Gauti

Miðað við óbreyttar forsendur hækkar veiðigjald útgerðarinnar um einn milljarð á næsta fiskveiðiári. Alþingi samþykkti á laugardagskvöld svonefnt minna frumvarp um fiskveiðistjórnun, sem felur í sér breytingar á eldri lögum um fiskveiðistjórnun. Áður hafði stóra frumvarpinu um heildarendurskoðun laganna verið frestað til haustsins. Margvíslegar breytingar voru gerðar á minna frumvarpinu í meðförum þingsins og miklar deilur voru um flest atriði þess. Meðal annars voru heimildir strandveiðibáta auknar og má reikna með að bætt verði í strandveiðipottinn þegar um næstu mánaðamót. Þá er með breytingunum dregið mjög úr möguleikum á tegundatilfærslum.

Áætlað hefur verið að á þessu fiskveiðiári greiði útgerðin 2,7-2,9 milljarða í veiðigjald í ríkissjóð, en fskveiðiárið 2009-10 nam gjaldið um 1.400 milljónum króna. Í frumvarpi sjávarútvegsráðherra var miðað við 70% hækkun veiðigjalds á næsta fiskveiðiári, en niðurstaða þingsins varð 40% hækkun og gæti hækkunin samkvæmt áætlunum numið einum milljarði króna á næsta fiskveiðiári.

Gjaldið er lagt á úthlutaðar aflaheimildir eða landaðan afla einstakra tegunda og tekur mið af afkomu greinarinnar hverju sinni.

Ráðstöfun til sveitarfélaga ákveðin með fjárlögum

Af veiðigjaldi næsta fiskveiðiárs fara 85% í ríkissjóð eins og áður var. Nú verður hins vegar heimilt að taka 15% af veiðigjaldi og ráðstafa til sveitarfélaga. Það yrði þá gert samkvæmt fjárlögum, en í upphaflega frumvarpinu var gert ráð fyrir að 20% færu til sjávarbyggða samkvæmt ákveðinni reiknireglu. Niðurstaða þingsins var 15% og verður úthlutunin á forræði Alþingis.

Hörð gagnrýni hafði komið fram á ákvæði frumvarpsins um ráðstöfun tekna af veiðigjaldi. Gagnrýnin beindist m.a. að þeim hluta teknanna sem átti að renna til landshluta og taldi fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins að ákvæðið kynni að fela í sér mismunun við úthlutun fjárframlaga til einstakra hluta landsins. Taldi skrifstofan slíkt fyrirkomulag geta falið í sér hættu á að brotið yrði gegn stjórnarskrá þar sem íbúar einstakra landshluta kynnu að verða öðruvísi settir en aðrir þegar kæmi að úthlutun fjármuna.

Nýta heimildir í öðrum kerfum

Aukið verður við strandveiðar þegar á þessu ári, en þingið samþykkti að bæta við 1900 tonnum af þorski og 600 tonnum af ufsa í strandveiðarnar í ár. Ólíklegt er að þessum heimildum verði úthlutað fyrr en frá og með júlímánuði, en strandveiðitímanum er skipt upp í fjóra mánuði og kæmi aukningin því á júlí og ágústmánuð. Rúmlega 500 bátar hafa fengið strandveiðileyfi í ár og miðað við þá tölu koma rúmlega fjögur þorskígildistonn að meðaltali í hlut hvers báts til viðbótar. Verðmæti aukningarinnar gæti verið um 1,4 milljónir fyrir meðalbát í strandveiðinni miðað við 350 krónur fyrir kíló af óslægðum þorski á markaði. Ekki verður settur á laggirnar sérstakur flokkur báta undir þremur brúttótonnum innan strandveiðanna.

Ráðuneytið telur að þessum auknu heimildum í ár verði hægt að mæta með ónýttum aflaheimildum í öðrum kerfum eins og byggðakvóta og í línuívilnun. Þær raski því ekki nýtingarstefnu eða aflareglu.

Á næsta ári hækkar strandveiðipotturinn um tvö þúsund tonn frá því sem áður var. Í byggðakvóta fara 2500 tonn til viðbótar því sem áður var. Í upphaflega frumvarpinu var gert ráð fyrir að sex þúsund tonn af þorski færu í byggðakvóta umfram það sem nú er, en þingið skar þessar heimildir niður. Ákvæði um úthlutun byggðakvóta í gegnum sveitarfélög er ekki að finna í lögunum og verður úthlutun byggðakvóta því óbreytt frá því sem verið hefur.

Deilt um þátttöku í pottum

Á síðustu dögum þingsins var hart tekist á um þátttöku allra greina útgerðar í fyrrnefndum stækkandi pottum, sem einkum byggja á þorskveiði. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að allar greinar legðu jafnt hlutfall í pottana, en niðurstaðan varð sú að aðrar útgerðir en þær sem eru með aflamark í þorski, ýsu, ufsa og steinbít taka þátt í jöfnuninni að ¼.

Leigja síld og skötusel

Í lögunum er að finna ákvæði um leigu á tvö þúsund lestum af norsk-íslenskri síld og sama magni af íslenskri sumargotssíld á þessu ári og því næsta. Útgerðir geta þá fengið tilteknu hámarki úthlutað og greitt 13 krónur fyrir kílóið. Skötuselur verður áfram leigður á þennan hátt á næsta ári og getur ráðherra leigt 1200 tonn af skötusel fyrir 176 krónur á kílóið.

Ákvæði um leigu á löngu og keilu var hins vegar fellt úr frumvarrpinu.

Loks má nefna að útgerðir stórra frístundabáta sem hafa verið vaxandi grein í ferðamennsku, t.d. á Vestfjörðum, fá nú auknar heimildir. Í stað 200 tonna fá þessir bátar nú 300 tonn á ári og er ákvæðið ekki lengur til bráðabirgða. Fyrir heimildirnar eru greidd 80% af kvótaverði í staðinn fyrir 100% áður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert