Miðað við óbreyttar forsendur hækkar veiðigjald útgerðarinnar um einn milljarð á næsta fiskveiðiári. Alþingi samþykkti á laugardagskvöld svonefnt minna frumvarp um fiskveiðistjórnun, sem felur í sér breytingar á eldri lögum um fiskveiðistjórnun. Áður hafði stóra frumvarpinu um heildarendurskoðun laganna verið frestað til haustsins. Margvíslegar breytingar voru gerðar á minna frumvarpinu í meðförum þingsins og miklar deilur voru um flest atriði þess. Meðal annars voru heimildir strandveiðibáta auknar og má reikna með að bætt verði í strandveiðipottinn þegar um næstu mánaðamót. Þá er með breytingunum dregið mjög úr möguleikum á tegundatilfærslum.
Áætlað hefur verið að á þessu fiskveiðiári greiði útgerðin 2,7-2,9 milljarða í veiðigjald í ríkissjóð, en fskveiðiárið 2009-10 nam gjaldið um 1.400 milljónum króna. Í frumvarpi sjávarútvegsráðherra var miðað við 70% hækkun veiðigjalds á næsta fiskveiðiári, en niðurstaða þingsins varð 40% hækkun og gæti hækkunin samkvæmt áætlunum numið einum milljarði króna á næsta fiskveiðiári.
Gjaldið er lagt á úthlutaðar aflaheimildir eða landaðan afla einstakra tegunda og tekur mið af afkomu greinarinnar hverju sinni.
Hörð gagnrýni hafði komið fram á ákvæði frumvarpsins um ráðstöfun tekna af veiðigjaldi. Gagnrýnin beindist m.a. að þeim hluta teknanna sem átti að renna til landshluta og taldi fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins að ákvæðið kynni að fela í sér mismunun við úthlutun fjárframlaga til einstakra hluta landsins. Taldi skrifstofan slíkt fyrirkomulag geta falið í sér hættu á að brotið yrði gegn stjórnarskrá þar sem íbúar einstakra landshluta kynnu að verða öðruvísi settir en aðrir þegar kæmi að úthlutun fjármuna.
Ráðuneytið telur að þessum auknu heimildum í ár verði hægt að mæta með ónýttum aflaheimildum í öðrum kerfum eins og byggðakvóta og í línuívilnun. Þær raski því ekki nýtingarstefnu eða aflareglu.
Á næsta ári hækkar strandveiðipotturinn um tvö þúsund tonn frá því sem áður var. Í byggðakvóta fara 2500 tonn til viðbótar því sem áður var. Í upphaflega frumvarpinu var gert ráð fyrir að sex þúsund tonn af þorski færu í byggðakvóta umfram það sem nú er, en þingið skar þessar heimildir niður. Ákvæði um úthlutun byggðakvóta í gegnum sveitarfélög er ekki að finna í lögunum og verður úthlutun byggðakvóta því óbreytt frá því sem verið hefur.
Ákvæði um leigu á löngu og keilu var hins vegar fellt úr frumvarrpinu.
Loks má nefna að útgerðir stórra frístundabáta sem hafa verið vaxandi grein í ferðamennsku, t.d. á Vestfjörðum, fá nú auknar heimildir. Í stað 200 tonna fá þessir bátar nú 300 tonn á ári og er ákvæðið ekki lengur til bráðabirgða. Fyrir heimildirnar eru greidd 80% af kvótaverði í staðinn fyrir 100% áður.