Uppboðsmarkaðnum á fiski í Hull á Bretlandi var nýverið lokað. Fyrirtækið Atlantic Fresh hefur haldið markaðnum gangandi frá árinu 2005. Að sögn Magnúsar Guðmundssonar, stjórnarformanns Atlantic Fresh, getur fyrirtækið ekki lengur séð markaðnum fyrir ferskum fiski frá Íslandi.
Að sögn Magnúsar Guðmundssonar er ástæðan tvíþætt: „Í fyrsta lagi er það svo, að það er búið að skerða ýsukvótann úr 95 þúsund tonnum niður í u.þ.b. 37 þúsund tonn og stendur til að skerða hann enn frekar,“ segir hann og bætir við að fyrirtækið hafi verið að flytja rúm 20 þúsund tonn á Bretlandsmarkað á ársvísu.
„Í öðru lagi hafa stjórnvöld komið á svokölluðu kvótaálagi sem er 5%, þetta þýðir að ef útgerðarfyrirtæki ákveður að selja óunninn, óvigtaðan fisk beint á erlendan markað er kvóti þess fyrirtækis skertur um 5%,“ segir Magnús og bætir við að þetta geri útgerðum sem vilja flyta út ferskan fisk erfiðara fyrir.
Magnús segist að lokum hafa áhyggjur af stöðu Íslendinga á Bretlandsmarkaði til lengri tíma litið, sértaklega varðandi heilan, ferskan fisk. „Norðmenn munu hirða markaðinn af okkur ef ekkert verður að gert, þar er sjávarútvegurinn ríkisstyrktur og ekki um neinar álögur að ræða á kvóta við útflutning.“