Verði frumvarpið um stjórn fiskveiða óbeytt að lögum mun það hafa alvarleg áhrif á atvinnulíf í einstökum sjávarbyggðum og jafnvel auka fremur óvissuna en minnka hana. Þetta má lesa úr umsögnum einstakra sveitarfélaga til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis.
Í umsögn bæjarráðs Hornafjarðar eru dregin saman líkleg áhrif bæði stóra frumvarpsins og minna frumvarpsins, sem varð að lögum í júní sl. Ekki verði annað sé „en að sveitarfélagið Hornafjörður verði fyrir einhverju mesta áfalli, hvað varðar atvinnulíf staðarins, fyrr og síðar“.
Um 18,1% af fiskveiðiheimildum landsins er skrásett í Fjarðabyggð og talið er að þar starfi um 500 manns við sjávarútveg og afleidd störf. Fram kemur í umsögn Fjarðabyggðar til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að sveitarfélagið fékk á sínum tíma endurskoðunarfyrirtækið KPMG til að skoða áhrif minna frumvarpsins. Í framhaldi af þeirri vinnu skoðuðu starfsmenn KPMG einnig hver yrðu áhrif stærra frumvarpsins á atvinnulíf í Fjarðabyggð. Þær niðurstöður liggja nú fyrir:
„Uppsöfnuð skerðing á 15 ára tímabili er um 25.432 þorskígildistonn eða sem nemur um 161 þúsund tonnum veiddum að því gefnu að tilflutningur frá flokki 1 til flokks 2 skv. 6. mgr. 3. gr. frumvarpsins komi til framkvæmda línulega á tímabilinu,“ segir í niðurstöðunum.
Áætlað er að skerðingin geti numið 3.391 þorskígildistonni miðað við óbreytta úthlutun frá fiskveiðiárinu 2010/2011 þegar lögin eru að fullu komin til framkvæmda að loknum 15 árum.
„Samdrátturinn hefur í för með sér uppsögn að ígildi 20-30 hásetahluta,“ segir ennfremur um niðurstöður KPMG í umsögn Fjarðabyggðar.
„Samdrátturinn hefur auk þess í för með [sér] að afleiddum störfum mun fækka til muna eða áætlað 40-90 afleidd störf.“
Þá er talið að útsvarstekjur sveitarfélagsins myndu dragast saman um 98-150 milljónir og að aflaverðmæti myndi dragast saman um 1,1 milljarð króna.
Bæjarráð Fjarðabyggðar lýsir þungum áhyggjum af áhrifum frumvarpsins enda sé ljóst að áhrif þess verði mikil á sveitarfélagið og íbúa þess.
Bæjaryfirvöld á Hornafirði fengu líka KPMG til að meta áhrif bæði litla frumvarpsins sem varð að lögum í sumar og stóra frumvarpsins sem nú er til umfjöllunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.
Í umsögn bæjarráðs Hornafjarðar er minnt á að afkoma í sjávarútvegi skipti sveitarélagið gríðarlega miklu máli og sé meginstoð atvinnulífs á staðnum.
Lokaskýrsla KPMG um áhrif stóra frumvarpsins á atvinnulíf og sjávarútveg á Hornafirði verður fljótlega opinberuð að því er segir í umsögn sveitarfélagsins.
Í umsögn sveitarfélagsins er vitnað í helstu niðurstöður úttektar KPMG um áhrif frumvarpsins á stjórn fiskveiða:
Þar kemur meðal annars fram að þorskígildistonn í sveitarfélaginu myndu dragast saman um rúmlega 1.600 tonn. Samdráttur aflaheimilda nemur tæplega 9%.
Bent er á að útgerðir á Hornafirði byggi að verulegu leyti á uppsjávartegundum, sérstaklega loðnu og síld, „og hafa þær keypt til sín aflaheimildir í þeim tegundum á undanförnum árum sem skerðast munu um 5.128 tonn eða sem samsvarar 604 þorskígildum,“ segir í niðurstöðunum.
Auk þessa sé humar skertur um 493 þorskígildistonn en humarveiði og vinnsla hafi skipt miklu máli á Hornafirði.
Lýsir bæjarráð Hornafjarðar verulegum og þungum áhyggjum af þeim farvegi sem breytingar á fiskveiðistjónuninni eru komnar í. Þessar breytingar muni hafa veruleg, neikvæð áhrif á grunnatvinnugrein sveitarfélagsins.
Hvatt er til þess að næstu mánuðir verði nýttir til samráðs um breytingar á kerfinu sem geti skilað almennri sátt í málinu og að ekki verði ráðist í breytingar sem skaði einstök byggðarlög.
Sveitarstjórnir nokkurra sveitarfélaga lýsa áhyggjum sínum í umsögnum. Í umsögn Grundarfjarðarbæjar segir m.a. að tímalengd nýtingarréttar skv. frumvarpinu sé of stuttur og væri nær að samningstími væri um 25 ár. Styttri samningstími nýtingarréttar muni skapa mikla óvissu og takmarka fjárfestingar í greininni.
„Á Snæfellsnesi byggist sjávarútvegur á smærri útgerðum. Frekari takmarkanir á framsali veikja rekstrargrunn þessara fyrirtækja og ýta undir samþjöppun í greininni,“ segir þar jafnframt.
Í umsögn hafnarmálaráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar er lagt til að frumvarpið verði tekið til gagngerrar endurskoðunar eða að öðrum kosti dregið til baka. Brýnt er að löggjafinn leiði málið til lykta og eyði þeirri óvissu sem uppi er, sem hefur margvísleg skaðleg áhrif á sjávarútveginn, er mat Akraneskaupstaðar í umsögn til Alþingis.