Stóra kvótafrumvarpið var samþykkt af allri ríkisstjórninni, að sögn Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra sem vísar því á bug að gallar séu á frumvarpinu.
Hann er spurður um tilboð formanns og varaformanns sjávarútvegsnefndar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur og Ólínu Þorvarðardóttur, um að semja nýtt frumvarp. „Það hefur verið í þeirra höndum hvernig málið var unnið og mér finnst sérkennilegt að fá álit frá einstökum nefndarmönnum í lok meðferðar þingnefndarinnar,“ svarar Jón í Morgunblaðinu í dag.
Í umfjöllun um mál þetta í blaðinu segir samfylkingarmaðurinn Róbert Marshall eðlilegt að Lilja Rafney og Ólína hafi unnið álitið sem sent var ráðherra, þær hafi haft mest tóm til að sinna málinu. „Þetta er ekki hefðbundið nefndarálit sem lagt er fram á milli umræðna,“ segir Róbert.