Ekki liggur fyrir hvenær ráðherrahópur skilar af sér áliti um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Í hópnum eru Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, og Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, en þau hafa m.a. kallað til samráðs þingmennina Ólínu Þorvarðardóttur og Kristján Möller, Samfylkingu, og Lilju Rafney Magnúsdóttur og Björn Val Gíslason frá VG.
Guðbjartur vildi ekki staðfesta þessi nöfn í samtali við blaðið í gær, en sagði að þingflokkar stjórnarflokkanna kæmu að málinu áður en vinnu ráðherranna lyki. Hann sagði að hópurinn hefði rætt við ýmsa, þar á meðal við formann og varaformann LÍÚ til að upplýsa þá um hvað væri verið að gera og hvernig.
„Ráðherrahópurinn mun skila forsendum fyrir nýju frumvarpi þar sem dregnar verða fram þær meginlínur sem við viljum hafa þar,“ sagði Guðbjartur. „Í framhaldi af því taka lögfræðingar og lagasmiðir við og vinna að gerð frumvarps í samráði við okkur og stefnt er að því að leggja fram frumvarp á vorþingi. Við vinnum meðal annars út frá stjórnarsáttmálanum, áliti sáttanefndarinnar, sem ég leiddi á sínum tíma, og það er einnig margt gott í þeim drögum sem unnin voru í sjávarútvegsráðuneytinu í haust. Það er allt uppi á borðinu, en núna erum við að glíma við forsendurnar og að sætta þau sjónarmið sem við teljum mikilvægt að sætta fyrir frumvarpssmíðina,“ sagði Guðbjartur.
Þingmennirnir Björn Valur og Kristján koma úr Norðausturkjördæmi, en þær Ólína og Lilja Rafney úr Norðvesturkjördæmi. Björn Valur sat m.a. í sáttanefndinni og Lilja Rafney og Ólína voru formaður og varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis.
Sem slíkar sendu þær sjávarútvegsráðherra í haust greinargerð um heildstætt fiskveiðistjórnunarfrumvarp ráðherra, ásamt tillögum um þær breytingar sem gera þyrfti á frumvarpinu áður en það yrði lagt fram að nýju. Þær lýstu sig reiðubúnar til þess að skrifa frumvarpið upp að nýju í umboði ráðherra og í samráði við sérfræðinga.
Frumvarpið var harðlega gagnrýnt í byrjun síðasta sumars og það var lagt til hliðar. Í haust kynnti ráðherra hins vegar á ríkisstjórnarfundi vinnuskjal eða drög að breytingum á núgildandi lögum um fiskveiðistjórnun. Í framhaldi af því var ráðherrahópurinn skipaður.
Ólína fjallar í bloggfærslu um breytingar á kerfinu og segir m.a. að eitt þeirra verkefna sem við blasi sé „að búa svo um hnúta að gætt verði jafnræðis við gerð og úthlutun nýtingarsamninga (til 15 ára skv. frumvarpi) og útleigðra aflaheimilda (til eins árs, svokallaður leiguhluti). Jafnframt þarf atvinnuréttur sjávarbyggðanna til nýtingar sjávarauðlindarinnar að vera tryggður. Verði áfram byggt á samningaleiðinni svokölluðu er óhjákvæmilegt að opna frekar á milli fyrirhugaðra nýtingarsamninga og leiguhluta ríkisins (tímabundinna aflaheimilda).“
Jafnframt segir að „farsælast væri að hverfa með öllu frá hugmyndum um byggða- og ívilnunarpotta og þar með miðstýringarvaldi ráðherra hverju sinni við úthlutun byggðakvóta.“
„Til þess að efla nýliðun og auka hráefnisframboð til fiskvinnslu á minni stöðum tel ég rétt að stórefla strandveiðar og gefa þær „frjálsar“ innan skilgreindra (og strangra) marka,“ segir Ólína í bloggfærslu. Veiðitímabilið þyrfti að vera afmarkað við fimm daga í viku í 4-6 mánuði. Aðeins bátar minni en 15 brúttótonn með tvær handfærarúllur fengju leyfi. Veiðarnar yrðu bundnar skráðum eiganda, sem ekki gerði út aðra báta á strandveiðitímanum.
Ólína telur að verði þessum skilyrðum fylgt strangt eftir yrðu aðrar takmarkanir óþarfar. „Þessar umhverfisvænu, sjálfbæru veiðar myndu skila mörg hundruð störfum og stórauknum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið,“ segir Ólína.