Foreldrar í Brekkuskóla á Akureyri eru æfir vegna þess sem þeir kalla hatursskrif Snorra Óskarssonar í Betel, kennara við Brekkuskóla og leiðtoga Hvítasunnusafnaðarins á Akureyri, um samkynhneigða.
Á bloggi sínu skrifaði Snorri nýverið: „Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin er ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.“
Þetta segja foreldrar kornið sem hafi fyllt mælinn og hefur samkvæmt heimildum vikublaðsins Akureyrar komið fram sú krafa að Snorra verði vikið frá störfum.
Á fundi skólanefndar sl. mánudag var tekið fyrir mál sem merkt er trúnaðarmál en ber yfirskriftina hatursáróður.
Logi Már Einarsson, arkitekt og foreldri barna í Brekkuskóla, situr í skólanefnd. Var blogg Snorra til umfjöllunar á fundi skólanefndar? „Ég get ekki staðfest að blogg Snorra hafi verið til umfjöllunar á skólanefndafundi undir liðnum hatursáróður. Ég er einfaldlega bundinn trúnaði um hvað þar fór fram,“ segir Logi í samtali við Akureyri vikublað.