Snorri ætlar að sækja bætur

Snorri Óskarsson
Snorri Óskarsson mbl.is/Jóhannes.tv

„Ég reikna með því að við dokum aðeins við og athugum hvort eitthvað frumkvæði verði af hálfu Akureyrarbæjar í kjölfar dóms Hæstaréttar til þess að leiðrétta þetta. Framhaldið verði síðan metið eftir því hvort einhver viðbrögð koma frá bænum og hver þau verða. En það verða settar fram kröfur um einhverjar bætur. Það er alveg á hreinu.“

Þetta segir Snorri Óskarsson í samtali við mbl.is en hann var sýknaður í Hæstarétti í síðustu viku af kröfum Akureyrarbæjar. Bærinn sagði honum upp störfum árið 2012 vegna ummæla hans um samkynhneigð á bloggsíðu sinni utan vinnutíma. Var uppsögnin dæmd ólögmæt en áður hafði Héraðsdómur Norðurlands eystra komist að sömu niðurstöðu. Eftir að dómur héraðsdóms lá fyrir var haft eftir Snorra að hann hefði í hyggju að höfða skaðabótamál gegn Akureyrarbæ en hann segir að framhald málsins hafi beðið niðurstöðu Hæstaréttar.

„Ég hugsa að það hljóti að vera óþægilegt fyrir bæinn að hafa þetta hangandi yfir sér því þetta er í rauninni alveg ótrúlegt mál. Ekki síst hvernig þetta fór af stað,“ segir Snorri. Bendir hann á að málið hafi farið í gegnum allt kerfið, þar á meðal innanríkisráðuneytið, og alls staðar hafi niðurstaðan verði honum í hag. Innanríkisráðuneytið úrskurðaði uppsögn Snorra ólögmæta árið 2014 en fyrir Hæstarétti krafðist Akureyrarbær þess að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi. Því hafnaði dómstóllinn hins vegar. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Akureyrarbæ hafi skort lagastoð til þess að grípa til uppsagnar vegna ummæla sem Snorri hefði látið falla utan starfs síns og án tengsla við það.

„Mér finnst athyglisverðast hversu afgerandi niðurstaða Hæstaréttar er. Það er ekki eitt atriði sem þeir nefna sem ég hefði átt að gera öðruvísi. Ég held að þetta sé afskaplega mikilvægur dómur fyrir kennara og líka aðra starfsmenn grunnskóla,“ segir Snorri. Málið snúist um miklu meira en eingöngu þau sjónarmið sem hann hafi sett fram. Það snúist um tjáningarfrelsið og rétt kennara og annarra skólastarfsmanna til tjáningar utan vinnutíma. „Þannig að tjáningafrelsið er vel tryggt með þessum dómi Hæstaréttar. Það er að minnsta kosti mín skoðun og ég er bara sáttur og ánægður með það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert