Hvorki fordómar né hatursáróður

Úr skólalífi.
Úr skólalífi. mbl.is

„Ég tel mig hvorki vera að brjóta lög, siðareglur né grunnskólalög. Ég var beðinn um að taka mér frí í gær, í dag og á mánudaginn og á að fara á fund með skólayfirvöldum á morgun,“segir Snorri Óskarsson grunnskólakennari á Akureyri, en bloggskrif hans um samkynhneigða hafa vakið hörð viðbrögð.

„Þetta er bara mín bloggsíða og ekkert sérstakt um hana að segja,“ segir Snorri. 

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem ummæli Snorra um samkynhneigða vekja hörð viðbrögð. Hann hefur kennt á Akureyri í tíu ár og segist aldrei hafa fengið viðlíka viðbrögð frá vinnuveitanda sínum eins og nú. 

„Mig grunar þó, að það hafi verið undirliggjandi aðgerðir innan skólans. Ég var settur til hliðar í mínu starfi fyrir fjórum árum. Það var engin skýring gefin á því. En skólastjóri hefur alveg leyfi til að skáka fólki til.“

Tengdist það skoðunum þínum? „Já, það gat tengst því. Að það þurfti að setja mig í einangrun.“

Þetta telst ekki vera nútímaskoðun

Snorri segist skilja þá gagnrýni sem beinist að ummælum hans. „Ég skil vel gagnrýni, sérstaklega varðandi samkynhneigð. Ég hef heyrt það lengi að þetta teljist ekki vera nútímaskoðun, sú skoðun sem ég er með. En ég skil ekki þá gagnrýni sem kalla þetta fordóma eða hatursáróður. Það er eitthvað sem ég kannast ekkert við.“

Hann segist hafa skilað greinargerð til Akureyrarbæjar í dag og að hann hafi haft samband við Kennarasambandið vegna málsins til að kanna með réttarstöðu sína. „Ég held þeim upplýstum. Mér finnst vart koma til greina í íslensku nútímaþjóðfélagi að mönnum sé sagt upp og brotnar á þeim stjórnarskrárgreinar sem fjalla um málfrelsi, tjáningar- og trúfrelsi.“

Einhliða umræða

Á bloggsíðu Snorra koma fram býsna afgerandi skoðanir á samkynhneigðum. Gera má ráð fyrir að þorri nemenda hans hafi aðgang að netinu og þar með bloggsíðu hans.

Finnst þér þetta ekki brjóta gegn því að kennarar eigi alltaf að hafa jafnræði í huga þegar þeir ræða um málefni? 

„Nei, alls ekki. Alls ekki. Ég held að það sé mjög eðlilegt að börnin fái líka að lesa þetta. En reyndar held ég að það séu frekar unglingar sem lesa þetta. Það eru unglingarnir sem eru farnir að hugsa um þessi mál og pæla í þessu.“

Snorri segir skjóta skökku við að Samtökunum ´78 sé leyft að koma í grunnskóla á sama tíma og trúfélögum sé meinaður aðgangur. „Þessi svokallaða gagnrýna hugsun, sem háskólasamfélagið vill ala upp í, það er ekki tilbúið til að hlusta á hinar hliðarnar. Þetta er orðið svo einhliða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka