Talsmenn samtaka sjómanna, útvegsmanna og fiskverkafólks segjast ekki hafa átt beina aðkomu að vinnu við gerð nýs stjórnarfrumvarps um fiskveiðistjórnun sem er í undirbúningi.
Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra greindi frá því í gær að hann hefði haldið upplýsingafundi með ýmsum í greininni og nefndi m.a. LÍÚ, Sjómannasamtökin og Starfsgreinasambandið.
„Við höfum enga aðkomu að þessari vinnu,“ sagði Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), um gerð frumvarpsins. Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir hann, að LÍÚ hefði hitt ráðherra á stuttum fundi 19. janúar.
Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands (SSÍ), sagði að engin efnisatriði væntanlegs frumvarps hefðu komið fram á fundi þeirra með sjávarútvegsráðherra.
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands (SGS), sagði aðspurður að ekki hefði verið haft samráð við þá um frumvarpsgerðina. Fiskverkafólk er m.a. innan SGS.