Jón Baldvin biðst afsökunar á bréfi

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson. mbl.is/Rax

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra, biðst í Fréttablaðinu í dag afsökunar á því að hafa árið 2001 sent sextán ára frænku eiginkonu sinnar bréf sem á köflum voru erótísk. Fjallað er um málið í tímaritinu Nýju lífi sem kemur út í dag.

Jón Baldvin segist hafa sent stúlkunni, sem þá var skiptinemi í Venesúela, bók eftir Vargas Llosa um samskipti Norður- og Suður-Ameríku. Bæði bókin og bréf sem fylgdi séu „á köflum erótísk“. Hann segir það hafa verið dómgreindarbrest, hvorugt hafi átt erindi við stúlkuna.

Jón Baldvin segir stúlkuna hafa kært sig fyrir kynferðislega áreitni á grundvelli bréfanna árið 2005. Kærunni hafi verið vísað frá sem tilefnislausri. Þá hafi saksóknari ákveðið að rannsaka sérstaklega árið 2006 hvort refsivert væri að skrifa slík bréf í Bandaríkjunum, þar sem Jón Baldvin bjó á þeim tíma, eða í Venesúela. Því hafi síðar verið vísað frá.

„Öllum verður okkur á í lífinu. Öll þurfum við einhvern tíma á fyrirgefningu að halda. Ég harma það alla daga að hafa valdið fólki sem mér þykir vænt um í minni nánustu fjölskyldu sárindum og hugarangri að ósekju. Ég hef viðurkennt mína sök og beðist fyrirgefningar,“ skrifar Jón Baldvin í Fréttablaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert