Gerðir verða nýtingarsamningar við kvótahafa til 20 ára með ákvæði um framlengingu að þeim tíma liðnum nái nýtt kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar fram að ganga á vorþinginu. Þetta hefur Morgunblaðið eftir öruggum heimildum.
Veiðigjald verður hækkað verulega en fer að hluta eftir afkomu útgerða. Gert er ráð fyrir að það renni allt í ríkissjóð en það hefur verið umdeilt í sjávarbyggðum. Þá verður notast við lægri viðmið í bolfiski en uppsjávarfiski.
Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingar, segir að frumvarpinu sé ætlað að sporna við samþjöppun í útgerðinni og opna um leið fyrir meiri nýliðun í greininni. Leigupottar verði notaðir í því skyni.
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknar, segir stuðning flokksins við frumvarpið skilyrtan við ýmsar kröfur, þ.m.t. ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum í stjórnarskrá. Stjórnin hafi „vonandi dregið í land“ frá fyrra frumvarpi.