Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, telur áform um leigupott í nýja kvótafrumvarpinu munu skaða sjávarútveginn.
„Eins og fleiri hugmyndir sem komið hafa fram í umræðum um endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins mun þetta leiða til þess að íslenskur sjávarútvegur verður óhagkvæmari.
Með því er verið að búa til hóp leiguliða sem vita ekkert um sína framtíð. Þeir vita ekki hvaða heimildir þeir fá til að veiða eða á hvaða verði. Þessar útgerðir hafa engan rekstrargrundvöll og það hefur sýnt sig í gegnum tíðina í allt of mörgum tilvikum að þeir aðilar sem eru kvótalausir og hafa leigt til sín aflaheimildir hafa ekki gert með réttum hætti upp við sjómenn.“
Í fréttaskýringu um þessi mál í Morgunblaðinu í dag staðfestir Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, staðfestir að leigupotti frumvarpsins sé ætlað að opna fyrir nýliðun í greininni. En samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er markmiðið að potturinn verði ekki undir 20.000 þorskígildistonnum.