„Fyrirtækið kemst strax í vanda og eftir tvö til fimm ár verður tvísýnt um framtíð þess. Fyrirtækið ætti fyrir veiðigjaldinu og vöxtum en gæti hvorki fjárfest né greitt af skuldum sínum að fullu.“
Þetta segir Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækisins Ramma, um áhrif nýju kvótafrumvarpanna á rekstur félagsins. Stjórnendur og endurskoðandi Ramma hafa heimfært ný frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld á rekstur ársins 2010 og notað til grundvallar þær tölur og aðferðir sem þar koma fram.
Í ítarlegri umfjöllun um kvótafrumvarpið og viðbrögð við því í Morgunblaðinu í dag segir Ólafur auknar byrðar munu setja fjölda starfa í uppnám. „Hjá félaginu starfa um 300 manns í þrem byggðarlögum, Ólafsfirði, Þorlákshöfn og Siglufirði. Kvótafrumvörpin ógna starfsöryggi þessa fólks og flestra í sjávarútvegi,“ segir hann.
Örvar Guðni Arnarson, fjármálastjóri Ísfélags Vestmannaeyja, hefur einnig áætlað áhrifin. Er það mat hans að með fyrirhugaðri hækkun á veiðigjaldi muni ríkið taka til sín yfir 70% af auðlindarentu greinarinnar.