„Það er mín skoðun að landsbyggðin eigi að reisa sína baráttu á þeim grunni að hún eigi rétt á sinni hlutdeild í sameiginlegu aflafé til þess að henni sé tryggð góð þjónusta og búsetuskilyrði. Það er nú einmitt meiningin að sveitarfélögin... fái hlutdeild í þeim tekjum sem þetta skilar.“
Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um þær aðgerðir sem stjórnvöld hyggjast grípa til í því skyni að rétta hlut útgerða og sjávarbyggða úti á landi sem muni fara verr út úr boðuðum breytingum á veiðileyfagjaldinu en önnur.
Steingrímur hafnar því að veiðigjaldið verði svo hátt að það jafngildi þjóðnýtingu. „Ég vísa því algjörlega á bug. Það má kannski segja að það sé verið að þjóðnýta, þótt það ætti ekki að þurfa, sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Það sem þjóðin á saman þarf ekki að þjóðnýta. Þannig að þetta er afar sérkennileg nálgun og kannski svolítið menguð af því hugarfari að tilteknir útgerðarmenn eða staðir hafi átt í beinum skilningi hluta af fiskstofnunum í sjónum.“