Mikill hiti var í fundarmönnum á opnum stjórnmálafundi Vinstri-grænna á Ísafirði í gærkvöldi. Þar voru einkum kvótafrumvörp ríkisstjórnarinnar og samgöngumál til umræðu.
Á fundinum sátu þau Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra og formaður VG, og Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, fyrir svörum. Margt var um manninn á þessum átakafundi og segja má að allir helstu útgerðarmenn Vestfjarða hafi verið þar mættir.
Þegar því var m.a. haldið fram að þar sem búið væri að afskrifa það mikið í sjávarútveginum væri hærri skattlagning réttlætanleg mótmæltu einstakir fundarmenn harðlega. „Það er ekki búið að afskrifa neitt af lánum til handa Bolvíkingum í sjávarútveginum,“ sagði Jakob Valgeir Flosason útgerðarmaður.
Lilja Rafney sagði að eðlilegt væri að Vestfirðingar borguðu til samfélagsins ef þeir vildu fá göng og vegi. Sú spurning sem hvað helst brann á vörum fundarmanna var af hverju ætti að skattleggja sjávarútveginn jafnmikið og raun ber vitni.