„Ríkisstjórnin býður upp á gagnrýni vegna þess að það vantar frekari greiningar og tölur, útreikninga, með þessum frumvörpum, sem hefðu þurft að fylgja með af því að þetta eru mjög mikilvæg mál. Þau eru jafnframt mjög umdeild og öllum mátti vera ljóst að menn myndu skoða þau mjög gaumgæfilega, líkt og hagsmunaaðilar hafa gert.“
Þetta segir Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri á Dalvík, í Morgunblaðinu í dag um þann farveg sem umræða um nýju kvótafrumvörpin sé komin í.
„Fyrirtækin eru að reikna. Sveitarfélögin eru að reikna. Bankarnir eru að reikna. Það eru allir að reikna nema sá sem leggur fram frumvarpið. Það eru hagsmunaaðilarnir sem hafa tölur yfir það hvaða áhrif frumvarpið mun mögulega hafa á einstök fyrirtæki, sveitarfélög og banka. Það má segja að ríkisstjórnin hafi þess vegna ekki það frumkvæði í umræðunni sem menn hafa ef til vill reiknað með,“ segir Svanfríður.
Fjölmennt var á fundi um kvótafrumvörpin í Sjallanum á Akureyri í fyrrakvöld. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar efndi til fundarins og segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri félagsins, sveitarfélögin í Eyjafirði uggandi um að frumvörpin muni koma niður á atvinnustiginu.