Verði veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar að lögum eru allar líkur á að lánveitendur muni þrýsta á sjávarútvegsfyriræki að greiða niður skuldir á næstu árum um leið og þrengja mun fyrir aðgang að lánsfé. Mun upptaka sérstaka veiðigjaldsins jafnframt hafa þær afleiðingar að sum útgerðarfyrirtækin munu ekki ráða við afborganir af lánum.
Á þennan veg má draga saman eina meginniðurstöðuna í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja um áhrif nýju kvótafrumvarpanna á íslenskan sjávarútveg, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag. Er greiningin rökstudd með því að veiðigjaldið hafi í för með sér að til lengri tíma séu líkur á að meðalframlegð útgerðarfyrirtækja verði lægri en 11%.
Slík framlegð „myndi skapa sjávarútvegi mjög erfið rekstrarskilyrði þar sem sú framlegð myndi vart nægja til þess að mæta vöxtum af skuldum og afskriftum af fastafjármunum“, segir í umsögninni sem hagfræðingurinn Yngvi Örn Kristinsson er höfundur að.