Daði Már Kristófersson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, og Stefán B. Gunnlaugsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri, munu á mánudag kynna atvinnuveganefnd Alþingis niðurstöður úttektar sem þeir eru að vinna á hagfræðilegum áhrifum kvótafrumvarps ríkisstjórnarinnar.
Miðvikudaginn 2. maí skila þeir svo skriflegri greinargerð til nefndarinnar. Þingnefndin óskaði eftir úttektinni í kringum páska samkvæmt upplýsingum blaðsins.
„Við erum búin að fá fjölmargar umsagnir og nú bíðum við eftir þessari úttekt. Málið er komið í þinglega meðferð og tilgangurinn með því er að fara í gegnum frumvörp og að sem flestir gefi sitt álit á þeim,“ segir Kristján L. Möller, formaður atvinnuveganefndar Alþingis.