Alþýðusamband Íslands (ASÍ) leggur til að strandveiðar í núverandi mynd verði lagðar af og að þeim aflaheimildum sem hafa farið í strandveiðipottinn verði ráðstafað í gegnum kvótaþing.
Þetta kemur fram í umsögn ASÍ um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og um frumvarp til laga um veiðigjöld.
„Helstu veikleikar frumvarpanna eru að verið er að veikja rekstrargrunn greinarinnar,“ segir í umsögninni. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði sambandið telja mikla breytingu felast í því að færa veiðiheimildir frá þeim geira útgerðar og fiskvinnslu sem býður upp á varanleg störf við sjómennsku og fiskverkun. Með því að setja meira í flokk 2 séu tímabundin störf sett framar hinum varanlegu.