Varamenn í stað ráðherra

Stjórnarráðshúsið.
Stjórnarráðshúsið. mbl.is/Hjörtur

Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis hefur lagt til að samþykkt verði frumvarp um breytingar á þingsköpum í þá veru að veita ráðherra sem jafnframt er kjörinn alþingismaður heimild til að sitja á Alþingi einungis samkvæmt embættisstöðu sinni sem ráðherra. Varamaður ráðherra taki sæti á Alþingi í hans stað á meðan hann gegnir embættinu.

Í áliti meirihlutans segir að verði frumvarpið samþykkt eigi ráðherrar samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi, og eigi þeir rétt á að taka þátt í umræðum eins oft og þeir vilja, en gæta verði þingskapa. Atkvæðisrétt eiga þeir þó því aðeins að þeir séu jafnframt alþingismenn. Frumvarpið felur í sér að ráðherrar sem nýta sér heimildina geta tekið þátt í umræðum og flutt mál en eiga ekki atkvæðisrétt. Varaþingmaður sem tæki sæti ráðherra á Alþingi færi með atkvæðisrétt, hefði öll réttindi alþingismanns og sömu skyldur.

Fjallað var um kostnað við breytingar sem frumvarpið felur í sér, ef ráðherra nýtir heimildina. Fyrir nefndinni kom fram að beinn kostnaður sem Alþingi greiðir, þ.e. laun og launatengd gjöld vegna hvers þingmanns, er að meðaltali um 12 millj. kr. á ári. Þessu til viðbótar greiðir forsætisráðuneyti laun og launatengd gjöld til hvers ráðherra sem nemur tæplega 7 millj. kr. á ári. Þannig hefur fækkun ráðherra um fjóra leitt til sparnaðar í launum og launatengdum gjöldum um sem nemur 27,6 millj. kr. á ári.

Viðbótarlaunakostnaður við innkomu varaþingmanna í stað ráðherra sem kjósa að víkja sæti getur því numið á bilinu 12-96 millj. kr. en þá eru ótalin útgjöld vegna starfsaðstöðu og þjónustu, ferðakostnaðar og húsnæðiskostnaðar, að meðaltali um það bil 5,5 millj. kr. á hvern þingmann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert