Daði Már Kristófersson, dósent við HÍ, telur að þrátt fyrir breytingar sé veiðigjaldið enn mjög hátt og engar efnislegar breytingar gerðar á frumvarpi um fiskveiðistjórnun. Því standi gagnrýni sem fram kom í sérfræðiáliti hans óhögguð.
Frumvarp um veiðigjöld á útveginn er komið á dagskrá þingfundar og er búist við að umræður hefjist í dag. Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur óskað eftir tvöföldum ræðutíma, eins og hann á rétt á.
Því verður ræðutími þingmanna að hámarki fjörutíu mínútur í stað tuttugu og styttri ræðurnar geta orðið tíu mínútur í stað fimm. Nýti þingmenn ræðutíma sinn til fulls munu umræður taka langan tíma. Þó verður gert hlé um sjómannadagshelgina.