Fjölmenni á samstöðufundi á Austurvelli

Sjómenn á samstöðufundinum á Austurvelli.
Sjómenn á samstöðufundinum á Austurvelli. mbl.is/Ómar

Fjölmenni er samankomið á Austurvelli til að taka þátt í mótmælafundum sem hófust kl. 16, en þar mætast andstæðar fylkingar. Útvegsmannafélögin og starfsfólk í sjávarútvegi standa nú að samstöðufundi á Austurvelli en á sama tíma hófst mótmælafundur fólks sem segir að kvótakerfið sé ekki einkamál útgerðarmanna. Blaðamaður mbl.is sem er á staðnum segir nokkuð um fjölskyldufólk á fundinum sem komið er til að sýna útvegsmönnum og sjómönnum samstöðu.

Um sjötíu skip eru nú bundin við bryggju í Reykjavíkurhöfn og um 1.000 sjómenn taka þátt í samstöðufundinum.

Í gær var stofnaður hópur á Facebook þar sem hvatt var til friðsamra mótmæla þeirra sem „vilja mótmæla hroka og frekju útgerðarinnar, vilja krefjast réttlátara kerfis, vilja sjálfbært fiskveiðistjórnunarkerfi“ líkt og segir í tilkynningu frá hópnum. Síðdegis höfðu um 900 manns boðað komu sína á fundinn.

Lögreglan er með töluverðan viðbúnað í miðborginni og hefur m.a. reist girðingu til mannfjöldastjórnunar í kringum Alþingishúsið.

Meðal þeirra sem munu ávarpa samstöðufund útvegsfélaganna eru þau: Adolf Guðmundsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, Árni Bjarnason, forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps, Ólöf Ýr Lárusdóttir, framkvæmdastjóri Vélfags á Ólafsfirði, og Þorvaldur Garðarsson, skipstjóri og útgerðarmaður á Sæunni Sæmundsóttur ÁR.

Fólk sem tekur þátt í samstöðufundi á Austurvelli.
Fólk sem tekur þátt í samstöðufundi á Austurvelli. mbl.is/Ómar
Málin rædd á Austurvelli.
Málin rædd á Austurvelli. mbl.is/Júlíus
Margt er um manninn á samstöðufundi á Austurvelli.
Margt er um manninn á samstöðufundi á Austurvelli. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert