„Ég mun reyna að vanda mig við að láta stórútgerðarmenn ekki gjalda þessara aðgerða þótt mér þyki þær ekki viðeigandi. En ég mun sannarlega ekki láta þá njóta þeirra heldur,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á Alþingi í dag um mótmælaaðgerðir útgerðamanna gegn frumvörpum ríkisstjórnarinnar um breytta fiskveiðistjórnun. Sagist hann þar lýsa persónulegri skoðun sinni.
Steingrímur sagði það fyrst og fremst Alþingis að meta hvernig það ynni ótruflað við aðstæður eins og þær sem nú væru uppi enda málið í höndum þess. Niðurstöður í löggjafarstörfum ættu ekki að ráðast af „þrýstingsaðgerðum fjársterkra sérhagsmunahópa“. Alþingi ætti að halda áfram sinni vinnu og reyna að komast að vandaðri og faglegri niðurstöðu í þessu máli eins og öðrum.
Ráðherrann var þar að bregðast við fyrirspurn frá Einari K. Guðfinnssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, um það með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlaði að bregðast við hinni miklu óánægju með frumvörp hennar í sjávarútvegsmálum. Engin sátt væri um þær breytingar þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda, og þar með talið Steingríms, um að leita ætti leiða til þess að taka á stærstu ágreiningsmálunum í þeim efnum og skapa um þau meiri sátt.
Einar sagði Steingrím ekki geta vísað einungis á Alþingi og sagt að málið væri í höndum þess eins og það kæmi honum á engan hátt við. „Þetta er ekki mál sem hæstvirtur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun núna láta framhjá sér fara af því að málið er komið inn í þing,“ sagði hann og benti á að umrædd frumvörp væru lögð fram að frumkvæði ráðherrans og að hann myndi ráða mjög miklu um lyktir málsins.
Þá gagnrýndi Einar Steingrím fyrir að gefa í skyn að þeir einu sem mótmæltu frumvörpunum væru einhverjir sem hann kysi að kalla stórútgerðarmenn. „Hér er um að ræða breiða samstöðu fjölda fólks alls staðar að af landinu í andstöðu við þessi frumvörp.“
Steingrímur svaraði því til að alltaf hefði legið fyrir að ekki væri auðvelt að ná fram friði um sjávarútvegsmálin en það þyrfti engu að síður að lenda málinu einhvern veginn. Hann sagði að þær aðgerðir sem væru í gangi væru aðgerðir Landssambands íslenskra útvegsmanna og ennfremur að „fjölmargir“ félagsmanna í þeirra röðum væru „mjög áhugasamir um að við reynum að finna á þessu lausn“.